Tjörnin

Veitingar

Arftaki frægs Búðahótels

Kominn er í bæinn Rúnar Marvinsson, sem gerði garðinn frægan á Búðum. Nýja veitingahúsið hans, sem heitir Við Tjörnina, á horni Kirkjutorgs og Templarasunds, er betra en forverinn á Snæfellsnesi. Enda er meiri eftirspurn góðs matar í miðju þéttbýlinu en úti í Búðahrauni, þótt fallegt sé á sumrin.

Milli Alþingis og Leikfélags Reykjavíkur getur Rúnar leyft sér þann munað að bjóða eingöngu sjávarrétti. Ekkert kjöt er á boðstólum handa viðskiptajöfrum, sem villast hér inn, í stað þess að halda sig við gamlar steikur á gömlum stöðum. Auðvelt er að sjá, að flestir gestir Tjarnarinnar greiða hátt matarverðið úr eigin vasa. Svoleiðis viðskiptavinir eru líklegir til að halda uppi nauðsynlegum aga í matreiðslu.

Nýr seðill tvisvar á dag

Rúnar Marvinsson er ekki lærður kokkur, en skákar þeim samt flestum. Matreiðsla Tjarnarinnar er í gæðaflokki Arnarhóls, hin bezta í landinu. Hugmyndir og tilraunir setja mark á matseðilinn, sem skipt er um tvisvar á dag, svo sem sæmir góðum veitingahúsum. Jafnvel fiskibollur verða að eftirminnilegri ódáinsfæðu í höndum Rúnars.

Tjörnin er fagurlega innréttuð í þremur litlum herbergjum á annarri hæð í gömlu húsi. Gólfið hefur verið viðarlagt og veggir fóðraðir í ljósu, hvort tveggja í samræmi við hinn gamla íbúðarstíl, sem meðal annars sést í gifsskreytingum í lofti. Út um gluggana er útsýni til Dómkirkju, Alþingis og á sumrin til kvöldsólar, óheft af gluggatjöldum.

Staðurinn er raunar pínulítill, tekur ekki nema um 30 manns í sæti. Í ráði er að stækka hann lítillega með því að koma fyrir setustofu handan stigagangsins, þar sem útsýni er gott til Tjarnarinnar. Vonandi leiðir álagið af stækkuninni ekki til tímahraks og minni vinnugæða í eldhúsi.

Húsgögn eru gömul trésmíði, virðulegir glasaskápar, slitin borð og stólar með innlögðum skreytingum í setu. Undir vönduðum borðbúnaði og litlum, rauðum rósum eru útsaumaðir dúkar og bláir velúrdúkar. Í gluggum eru pottablóm. Þetta er notalegt og menningarlegt umhverfi, sem truflast ekki af neinu á kvöldin og aðeins af pappírsþurrkum í hádeginu.

Þjónustan á staðnum er lýtalaus, enda undir stjórn konu Rúnars, Sigríðar Auðunsdóttur, sem einnig er framkvæmdastjóri veitingahússins. Allt gerist án hávaða og fums.

Eldhús Rúnars er lítið, raunar minna en eldhús hans var að Búðum. Útbúnaður er þó annar og merkari, því að hér rúmar eldhúsið gaseldavél og gasofn að frönskum hætti. Það er ekki gert til að spara dýrt rafmagn, heldur til að gefa kokknum tækni til fínlegri hitastillingar.

Minnisstæðar súpur

Súpur Rúnars eru kafli út af fyrir sig. Eftirminnilegust er einstaklega bragðmikil og bragðgóð seljustöngulsúpa. Næst henni í endurminningunni gengur laxasúpa, sem var borin fram með laxahrognum. Einnig var fiskisúpa mjög góð. Súpunum fylgdu heitar brauðkollur, bakaðar á staðnum, mjög bragðgóðar.

Af nýlegum forréttum minnist ég helzt óvenjulegs réttar, hvítlauksristaðra þorskhrogna, sem brögðuðust afar vel. Hörpufiskur með tómat, hvítlauk og heitu brauði var einstaklega meyr og ljúfur. Ennfremur voru fyrsta flokks bæði grafinn karfi með sinnepssósu og kryddlegin ýsa með piparrótardýfu.

Af aðalréttum voru áðurnefndar fiskbollur sérstakt meistaraverk. Þær voru bornar fram með smjörsteiktu sveppajukki og saffran-hrísgrjónum. Þær voru einstaklega léttar og bragðmiklar í senn. Oft skilja slíkar bollur, frauð og kæfur milli þeirra, er kunna að elda, og hinna, sem eru á rangri hillu.

Grillaður urriði með möndlusósu var ekki bragðmikill og raunar óþarflega mikið eldaður. Bragðið var einkum þetta dæmigerða útigrillbragð, sem Íslendingum þykir sem þjóð rigningar og roks afar eftirsóknarvert af sálrænum ástæðum.

Tindabikkja og sólkoli í boði

Hins vegar var eldsteikt tindabikkja afar góður matur, borin fram með kapers, vínberjum, afskaplega nett soðnu grænmeti og góðri pernod-sósu. Allar sósur Tjarnarinnar hafa verið fínar sósur, lausar við hveiti. Það gildir til dæmis um bragðsterka yrju- og madeira-sósu, sem fylgdi bragðgóðum skötusel, er borinn var fram með stórum og afar góðum humar.

Einnig man ég eftir fínum sólkola heilsteiktum. Sólkoli veiðist nokkuð hér við land, einkum við Vestmannaeyjar, og er einn bezti matfiskur, sem hér fæst, en er nærri eingöngu seldur til útlanda. Viðskiptavinir veitingahús og fisksala mættu gjarna þrýsta upp framboði sólkola á innlendum markaði.

Súkkulaðiterta hússins var frábær, borin fram með þeyttum rjóma, melónu og kiwi. Einnig var góð frönsk súkkulaðiterta með koníaksrjóma. Fersk jarðarber voru borin fram með flórsykri sér á undirskál.

Kaffi er gott á þessum stað. Vín hússins, seld í glasatali, eru skynsamlega valin. Það eru hvítvínið Riesling Hugel og rauðvínið Santa Christina. Þau fást bæði á flöskum, sem og hvítvínið Chateau Cléray og rauðvínið Chateau Fontareche. Annað á vínseðlinum er lítils virði og sumt er hreint rusl, svo sem almennt tíðkast á veitingahúsum þessa lands.

1677 krónur á mann

Miðjuverð þriggja rétta máltíðar með kaffi, en án víns, er 1430 krónur á mann í hádeginu og 1677 krónur á kvöldin. Það má telja hagstætt fyrir matreiðsluna og umhverfið í veitingahúsinu Við Tjörnina.

Jónas Kristjánsson

Dæmigerður kvöldseðill:
280 Grænmetissúpa
380 Fiskisúpa
430 Kryddleginn fiskur
420 Hvítlauksristuð þorskhrogn
500 Hörpuskelfiskur með tómat og hvítlauk
500 Bakaðir ferskir sveppir
660 Grænmetisréttur hússins
770 Pönnusteikt smálúða
880 Heilsteiktur sólkoli
770 Hvítlaukssniglar
920 Skötuselur með humri, yrju og madeira
1500 Glóðaðir humarhalar
900 Glóðuð heilagfiskisneið
820 Smjörsteiktur skarkoli
350 Terta hússins
300 Rjómaís með ferskum jarðarberjum
350 Ferskt ávaxtasalat
1500 Máltíð: Grafinn silungur, eldsteikt tindabikkja, fersk jarðarber

DV