Þjóðin er siðgrönn

Greinar

Sigfús Jónsson, nýráðinn bæjarstjóri Akureyrar, vék af fundi Byggðastofnunar fyrr í þessum mánuði, þegar tekin var afstaða til flutnings stofnunarinnar til Akur eyrar. Hann gerði laukrétt, því að öðrum kosti hefði hann lent í dæmigerðum hagsmunaárekstri.

Sigfús hlaut litlar þakkir fyrir að haga sér eins og siðuðum manni sæmir. Hins vegar rigndi yfir hann óbótaskömmum. Táknræn fyrir blindu manna í ábyrgðarstöðum eru orð formanns fjórðungssambands Vestfjarða, sem sagði: “Þetta hefði ég ekki gert”.

Grófastur var Dagur á Akureyri, sem réðst harkalega á Sigfús og sagði þetta “heldur dapurlega byrjun á bæjarstjóraferli” hans. Síðan bætti blaðið við gersamlega órökstuddum dylgjum um, að bæjarstjórinn hefði lofað starfsmönnum Byggðastofnunar þessu.

Sigfús sagðist hins vegar hafa sem bæjarstjóri haft beinna hagsmuna að gæta. “Menn verða að hafa eitthvert siðferði”, sagði hann. Um Dagsmenn sagði hann einfaldlega, að hann tæki “ekkert mark á þeim”, ­ þeir virtust ekki skilja hugtakið hagsmunaárekstur.

Ef til vill er siðgæði smám saman að síast inn í stjórnmálin með ungu fólki á borð við Sigfús Jónsson. Ef svo er, megum við fagna því að vera á réttri braut, þótt breytingin taki langan tíma, þegar hún fylgir kynslóðaskiptum. En sumir vilja, að þetta gerist hraðar.

Í umræðum hér í blaðinu um helgina um spillinguna í stjórnmálum landsins kom fram almennur skilningur stjórnmálamanna ­ einnig þeirra í gömlu flokkunum ­ að ekki væri nóg, að þeir færu að lögum. Þeir yrðu að gera meiri siðakröfur til sín en aðrir gera.

Þar var bent á, að við höfum fátæklegar lagareglur um, hvað sé löglegt og hvað ekki. Þess vegna skipti formið eitt ekki öllu máli, heldur siðmenningin að baki, ­ rótgrónar siðavenjur, sem í heiðri eru hafðar. Þeirri siðrænu reisn hafa Íslendingar ekki náð.

Athyglisvert var, en engan veginn óvænt, að tillögur til úrbóta komu fyrst og fremst frá fulltrúum nýju flokkanna, sem hafa ­ hingað til ­ lítinn eða engan þátt tekið í stjórnmálaspillingunni, er kraumað hefur umhverfis gömlu flokkana fjóra, ­ svokallaðan fjórflokk.

Önnur hugmyndin er Kvennalistans. Fulltrúi hans kvað samskiptamynztur karla einkenna spillinguna. Þetta mynztur hentaði hins vegar ekki konum. Í röksemdafærslunni lá, að heppilegast væri að hríðfækka körlum og stórfjölga konum í stjórnmálum.

Kenning Bandalags jafnaðarmanna er kunnuglegri, enda kemur hún alveg heim og saman við það, sem margoft hefur verið haldið fram hér í blaðinu. Hún er sú, að rýra megi spillinguna með því að brjóta hið pólitíska skömmtunarkerfi, sem fjórflokkurinn hefur komið upp.

Staðreyndin er, að fjórflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur, skammtar réttlæti, peninga og embætti, ­ sumir flokkar meira, aðrir minna. Þar sem þjóðin kýs þessa fjóra flokka, ber hún sjálf ábyrgð á spillingunni.

Margir fulltrúar fjórflokksins vilja, að dregið verði úr spillingunni. Enda ber að viðurkenna, að hún hefur rýrnað smám saman undanfarinn aldarfjórðung. En það veikir viljann, er þeir taka eftir, að þjóðin hefur í raun ekki umtalsverðan áhuga á breytingum til bóta.

Þegar menn eru ófeimnir við að ráðast opinberlega á siðræn viðhorf nýja bæjarstjórans á Akureyri, hlýtur þjóðin í heild enn að teljast of siðgrönn.

Jónas Kristjánsson

DV