Hið fyrsta, sem Alþingi ætti að gera, þegar það kemur saman í október, er að afgreiða ný lög um vöruflutninga milli landa. Samkvæmt lögunum væri óheimilt að flytja til landsins vöru í skjóli einokunarlaga, sem önnur ríki setja. Nýju lögin geta verið stuttorð.
Ein afleiðing laganna er, að ólöglegir verða vöruflutningar Rainbow Navigation milli Bandaríkjanna og Íslands í þágu varnarliðsins á Keflavíkurvelli. Þannig fá Bandaríkjamenn það, sem þeir eiga skilið vegna viðskiptaofbeldis þeirra gagnvart okkur.
Slík lög mundu ekki færa okkur einokunina, sem við höfðum einu sinni á þessum flutningum, enda var hún ekki réttlát fremur en sú, sem nú gildir. En þau mundu sýna Rambóum ríkisstjórnar Bandaríkjanna, að það kosti þá óþægindi, þegar þeir sparka ítrekað í okkur.
Ennfremur þarf Alþingi að úrskurða í október, að lög um bann við innflutningi kjöts gildi einnig um varnarliðskjöt. Lögin voru á sínum tíma sett af heilbrigðisástæðum og eru marklaus, ef kjöt er flutt inn af öðrum ástæðum, svo sem utanríkispólitískum.
Að vísu leikur grunur á, að heilbrigðisástæðurnar hafi verið yfirvarp eitt og hin raunverulega forsenda laganna hafi verið verndun hins hefðbundna landbúnaðar. En meðan þau eru í gildi eiga þau að ná til allra, þar á meðal til varnarliðsins á Keflavíkurvelli.
Slík ákvörðun löggjafans mundi ekki leiða til aukinnar sölu á kjötfjalla-lambi hins hefðbundna landbúnaðar. Ekki er hægt að þvinga menn til að snæða það, sem þeir ekki vilja snæða, þótt þeir séu annars gefnir fyrir feitmeti. En eitthvað færi af nautakjöti og kjúklingum.
Slík ákvörðun mundi ekki heldur þvinga hvalkjöti ofan í varnarliðsmenn. Ekki er hægt að ætlast til, að þeir borði það, sem við viljum tæpast borða sjálf. Hins vegar mundi hún sýna Rambóum ríkisstjórnar Bandaríkjanna, að við erum ekki algerar gólfmottur þeirra.
Einokun vöruflutninga til varnarliðsins og hótanir um viðskiptastríð vegna hvalveiða eru að ýmsu leyti óskyld mál. En þau sýna bæði tilhneigingu bandarískra yfirvalda til að ganga eins langt í frekju og þau framast geta gagnvart öðrum ríkjum, vinveittum sem öðrum.
Þeir segjast fara eftir sínum lögum og það er alveg rétt. Verra er, að löggjafi þeirra er kominn í mikið haftastuð. Um 400 haftatillögur bíða nú afgreiðslu í bandaríska þinginu. Ef illa gengur einhvers staðar í bandarísku atvinnulífi, er útlendingum um kennt.
Einhvern tíma kemur sennilega að því, að bandaríski fiskiðnaðurinn tekur upp frystitækni. Þrýstifulltrúar hans munu samstundis hlaupa vælandi fyrir þingmenn og ráðherra til að heimta tolla og önnur höft á innflutning frá Íslandi. Á þá mun verða hlustað.
Kanadamenn standa Bandaríkjamönnum nær en Íslendingar gera. Samt hafa Kanadamenn mátt þola, að alls kyns hömlur hafa á síðustu árum verið lagðar á langvinnan og hefðbundinn innflutning kanadískra fiskafurða til Bandaríkjanna. Við erum líka í hættu.
Íslenzk stjórnvöld ættu að hefja ráðstafanir til að beina utanríkisviðskiptum okkar til dreifðari markaða, svo að áhættan minnki á einum stórum markaði eins og Bandaríkjunum. Leggja þarf aukna áherzlu á sölu frystra og ferskra sjávarafurða til Evrópu og Japans.
Þannig eigum við annars vegar að sýna, að ekki er ókeypis að sparka í okkur og hins vegar að reyna að koma í veg fyrir frekari spörk í framtíðinni.
Jónas Kristjánsson
DV