Eftir hraklega meðferð sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar á hvalveiðimálinu situr þjóðin uppi með eitt fjallið enn, hvalfjallið. Sjávarútvegsráðherra hefur meira að segja hótað okkur, að við verðum að greiða niður kjötið til að koma því ofan í refi og minka.
Sorglegt er að heyra leiðtoga stjórnarandstöðunnar lýsa yfir, að myndun hvalfjalls á Íslandi hafi verið skásti kosturinn í stöðunni. Þannig hefur allt litróf íslenzkra stjórnmála fyrst náð samræmi í hreinu rugli, rökfræðilegri endaleysu og fjárhagslegu tjóni.
Samkvæmt útkomunni, sem íslenzkir stjórnmálaskörungar virðast innilega sammála um, fáum við nú eitt fjallið til viðbótar við lambafjallið, mjólkurfjallið, smjörfjallið og ostafjallið. Þar með munu skattgreiðendur fá enn einn heimagerðan vanda til að glíma við.
Ef andstæðingum okkar úti í heimi tekst að nýta heimsku okkar og ólán til fulls, fáum við líka fiskifjall ofan á önnur fjöll, sem við höfum orðið okkur úti um. Við erum nefnilega ekki búin að bíta úr nálinni, þótt friður hafi verið saminn milli tveggja ríkisstjórna.
Ein fyrstu mistökin, sem okkar menn gerðu, voru að vanmeta áhugamenn um bann við hvalveiðum. Okkar menn hafa nú ítrekað þau mistök með því að líta svo á, að bandarískir fiskkaupendur eða stjórnvöld muni ekki láta undan frekari þrýstingi úr þeirri átt.
Næstu mistök okkar manna voru að knýja fram svokallaðar vísindaveiðar 120 stórhvela, í stað þess að sætta sig við orðinn hlut. Þótt stjórnarerindrekar geti samið um slíkt í einhverju ráði, breytir það ekki afar neikvæðu og hríðversnandi almenningsáliti í heiminum.
Þriðju og verstu mistök okkar manna voru að telja sjálfum sér trú um, að orðalag um innanlandsneyzlu þýddi í raun, að við gætum haldið uppteknum hætti og selt þorra afurðanna til Japans. Ótrúlega einsýni og þrjózku þurfti til að ímynda sér þetta. Og það var gert.
Afleiðingarnar eru nú komnar í ljós. Þeim 70% okkar, sem samkvæmt skoðanakönnun studdu hinar svokölluðu vísindalegu hvalveiðar, má nú vera ljóst, að þau hafa þá stjórnmálaforingja, sem þau eiga skilið. Þau geta byrjað, undir forustu þeirra, að éta hvalinn.
70% þjóðarinnar eiga skilið stjórnmálamenn, sem eru svo rökfirrtir, að þeir blanda saman í einum málslið stuðningi við svokallaða vísindastefnu, hvalnýtingarstefnu og jafnvel fiskifriðunarstefnu – og hafa loks fengið niðurgreidda hvalfjallsstefnu í eðlilega útkomu.
Komið hefur fram, að hvalfjallið er ekki samkeppnishæft á innanlandsmarkaði sem hráefni í lýsi, mjöl eða refafóður. Það stafar einfaldlega af, að það er dýrara en fiskúrgangur. En stjórnvitringar okkar geta hins vegar reynt að láta það keppa við kjötfjallalambið.
Mátulegt væri, að þeir legðu saman í flokk sjónvarpsmynda, þar sem þeir kenndu 70% landsmanna átið og birtu þeim gagnlegar uppskriftir að hvalkjötsréttum. Síðan gætu þeir reynt að skýra áhrif þessa áts á snæðing annarra fjalla, sem þeir hafa komið upp.
Dæmigert fyrir íslenzka stjórnmálamenn er að hafa reynt að skapa þjóðinni gróða með flóknum undanbrögðum í hvalveiðum og sitja svo uppi með að hafa bakað þjóðinni stórtjón. Táknrænt er, að stjórn og stjórnarandstaða skuli einmitt vera sammála um rugl.
Þjóðin getur sjálfri sér um kennt. Hún hefur hlustað á og lesið endemis þvæluna úr þessum mönnum á degi hverjum án þess að hafa kennt til merkjanlegrar ógleði.
Jónas Kristjánsson
DV