Grænfriðungar, hverjir?

Greinar

Fólk vanmetur grænfriðunga, þegar það segir, að okkur beri ekki að láta amerískar kerlingar segja okkur fyrir verkum. Grænfriðungar hafa verið að baka okkur vandamál og munu áfram gera það. Okkar er svo að meta, hversu dýrt og hættulegt það verður okkur.

Ekki dugir að láta tilfinningar ráða. Marklaust er að leggjast í hvalveiðiþrjózku út á þá kenningu, að grænfriðungar hafi rangt fyrir sér, skilji ekki málið eða séu beinlínis kaldrifjaðir fjáraflamenn. Mörg okkar láta því miður reiðina hlaupa með sig í gönur.

Við höfum séð, að ein frönsk kona hefur eyðilagt lífsafkomu heilla byggðarlaga í Grænlandi og Kanada með heimsfrægri andúð sinni á selveiðum. Við skulum ekki vanmeta, hvaða böl megi færa okkur á herðar, jafnvel þótt nú sé ekki fyrirsjáanlegt, hvernig leikar fari.

Í Bandaríkjunum einum saman er yfir hálf milljón manna í samtökum grænfriðunga. Í næstöflugustu samtökunum gegn okkur þar í landi er tæplega hálf milljón manna. Samtals eru fern eða fimm samtök af þessu tagi að skipuleggja samstarf um aðgerðir gegn okkur.

Tvenn fjölmennustu samtökin hafa samanlagt um 100 fastráðna starfsmenn í Washington, einmitt á þeim stað, þar sem auðveldast er að ráðast að hagsmunum okkar. Við vitum ekki enn, hvort þeim tekst að skaða fisksölu okkar, en við verðum að vera undir það búin.

Hugsanlegt er, að allt sé rétt, sem ljótt er sagt um grænfriðunga. Verið getur, að þar sé saman kominn kaldrifjaður hópur atvinnumanna, sem svífist einskis til að tryggja og efla fjárstrauma frá amerískum kerlingum til að halda við hátekjum sínum og auka þær.

Hins vegar verður að teljast afar ótrúlegt, að markviss kynningarherferð okkar geti sannfært Bandaríkjamenn um slíkt. Miklu líklegra er, að hugsanlegur áróður okkar gegn grænfriðungum muni enn æsa Bandaríkjamenn gegn okkur. Er þó þegar nóg að gert á því sviði.

Tilfinningasemin vestra í málinu er svo mikil, að menn urðu ókvæða við, þegar fréttist, að Íslendingar hygðust troða hvalnum ofan í refi og minka. Þá kom til viðbótar til skjalanna andúðin á eldi dýra í fangelsum til að hafa af þeim pelsa handa hofróðum heimsins.

Ef við rekum einhvern áróður, þarf hann að vera varfærinn. Það þýðir ekki að senda sjávarútvegsráðherra vestur til að flytja mönnum þar hinn hefðbundna orðhengilshátt og útúrsnúninga, sem Íslendingar urðu illræmdir fyrir við dönsku hirðina fyrr á öldum.

Grænfriðungar eru ekki þögli meirihlutinn á götunni í Bandaríkjunum. Þeir eru menntafólkið, sem las Moby Dick í skóla, notar dagblöð í stað imbakassa, skrifar þingmanninum bréf, lifir góðu lífi á háum launum, er í valdastöðum, ­ jafnvel inni í ráðuneytunum sjálfum.

Í stuttu máli eru grænfriðungar í kallfæri við máttarvöldin í Bandaríkjunum. Þeir eru virkir þátttakendur í þjóðmálunum og hafa áhrif í samræmi við það. Þess vegna er einn grænfriðungur á við þúsund þeirra, sem horfa sljóum augum á sápuóperur í sjónvarpinu.

Þetta eru auðsjáanlega gerólíkar aðstæður og voru í þorskastríðum okkar, þegar við gátum stutt okkur við samstöðu áhrifafólks um öll Vesturlönd. Nú leikum við hlutverk hins illa, erum kallaðir svívirðileg ómenni, sem drepum hvali til að gefa refum og minkum að éta.

Hvernig sem sveiflast tilfinningar annarra, skulum við ekki æsa okkur upp, heldur muna, að við erum fiskveiðiþjóð, sem þarf kaupendur að fiski, ­ ekki að hval.

Jónas Kristjánsson

DV