Gáfust upp

Greinar

Á Þingvallafundinum í síðustu viku gáfust ráðherrarnir formlega upp við að stjórna ríkisfjármálunum, en ætla samt að sitja sem fastast út kjörtímabilið. Þeir ákváðu að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 1987 með miklum halla, líklega 2,2 milljörðum króna.

Þótt oft hafi reynzt vera halli á ríkissjóði að loknu fjárhagsári, hefur verið venja, að ríkisstjórnir leggi fram hallalaus fjárlagafrumvörp. Fyrirfram ráðgerður halli upp á meira en 5% er nýstárleg ævintýramennska, sem þessi ríkisstjórn er að gera sig seka um.

Ef að líkum lætur, verður hallinn meiri í reynd. Búast má við, að ríkisstjórnin verði í upphafi næsta árs að kaupa sér frið á vinnumarkaði með félagsmálapakka og öðrum útgjöldum. Hallinn á fjárlögum gæti hæglega nálgast 10%, þegar öll kurl eru komin til grafar.

Þetta er slæmur viðskilnaður, sem bendir til, að ráðherrarnir hafi tekið trú á þau hjáfræði, að halli megi vera á rekstri ríkisins, svo framarlega sem hann sé fjármagnaður með innlendum lánum, en ekki erlendum. Þetta sé skuld sumra barna okkar við önnur börn okkar.

Allt tal um innlenda fjármögnun er raunar marklítið, svo framarlega sem tekin eru á sama tíma önnur lán í útlöndum. Það verður gert á næsta ári. Halli á ríkisbúskapnum eykur því óbeint skuldir okkar í útlöndum, þótt reynt sé að sýna annað á pappír.

Jafnvel þótt engin lán séu tekin í útlöndum, er hægt að minnka skuldir okkar við útlönd um þá upphæð, sem ráðherrarnir neita sér um að taka á innlendum markaði. Auk þess eru innlendu lánin tekin í samkeppni við aðra innlenda lántakendur.

Hinn ráðgerði halli á ríkisbúskapnum mun stuðla að viðgangi hárra vaxta og verðbólgu. Hann tryggir, að vaxtalækkun ríkisskuldabréfa úr 8% í 6,5% verður ekkert annað en fjögurra mánaða sjónhverfing. Í raun er verið að þrýsta vöxtum upp á við.

Þrátt fyrir hallann hefur ríkisstjórninni ekki tekizt að efna loforðið um afnám tekjuskatts af venjulegum tekjum. Það átti að gera í þremur áföngum, en við fengum aðeins að njóta hins fyrsta þeirra. Og í ár hefur tekjuskatturinn í raun verið hækkaður aftur.

Þetta er síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, því að kosningar verða fyrri hluta næsta árs. Með frumvarpinu hefur ríkisstjórnin glatað síðasta tækifærinu til að sýna varkára fjármálastjórn og efna loforðið um afnám tekjuskatts af venjulegum tekjum.

Ríkisstjórnin mun því mæta kjósendum að vori með endurnýjuð loforð, en engar efndir. Það verður þá kjósenda að ákveða, hvort þeir vilja sætta sig við þá frammistöðu. Skynsamlegt væri, að þeir gerðu það ekki, öllum ríkisstjórnum til verðugrar áminningar.

Viðurkenna ber, að fjárhagsvandi ríkisstjórnarinnar var ekki auðleystur. Það er erfitt að lækka skatta og halda ríkissjóði hallalausum í senn. Til þess að ná slíkum árangri hefði ríkisstjórnin þurft að sýna meiri kjark en hún er reiðubúin til að gera.

Hún hefði þurft að ráðast á einhverja heilögu kúna og skera til dæmis einhverja af milljörðunum, sem renna til hins hefðbundna landbúnaðar. En tveir stærstu framsóknarflokkar landsins eru auðvitað ófærir um slíkt. Þess vegna fóru ríkisfjármálin í hnút.

Á fundi ráðherranna á Þingvöllum í síðustu viku gáfust þeir endanlega upp við að reyna að leysa hnútinn, sem þeir hafa bundið á ríkisfjármálin.

Jónas Kristjánsson

DV