Áttu að mæta hjá Anker

Greinar

Meðan heimsveldin tvö eru að feta sig áfram til tímamótasamnings í vetur um virkt eftirlit með takmörkun vígbúnaðar eru stjórnmálaleiðtogar á Norðurlöndum enn á hliðarspori kjarnorkuvopnalauss svæðis og tala um það eins og hverja aðra alvöru lífsins.

Þar sem Norðurlönd eru kjarnorkuvopnalaus, er ekki auðséð, hvaða tilgangi þjóna yfirlýsingar þeirra um, að þau séu kjarnorkuvopnalaus svæði. Ekkert hefur komið fram, sem bendir til, að færri kjarnorkuvopnum verði beint að Norðurlöndum vegna slíkrar yfirlýsingar.

Sovétríkin hafa löngum hvatt til yfirlýsinga um kjarnorkuvopnalaus svæði, alveg eins og þau hafa hvatt til margvíslegra yfirlýsinga um góðan vilja. Hins vegar hafa þau til skamms tíma verið afar treg til að fallast á eftirlit með, að hinum góða vilja sé framfylgt.

Nú er hins vegar svo komið, að Sovétríkin geta líklega fallizt á nánara eftirlit en þau gátu áður. Þar með hefur myndazt grundvöllur fyrir gagnkvæmu trausti, er getur leitt til stöðvunar hins sjálfvirka vígbúnaðarkapphlaups, sem hefur einkennt síðustu áratugi.

Mannkynið þarf á að halda virku eftirliti með stöðvun kjarnorkutilrauna og efnavopnaframleiðslu: með flutningum hermanna og hergagna; með fækkun kjarnaodda, einkum þeirra, sem að er stefnt að nota í skyndiárás fremur en í hefndarárás sem svari við skyndiárás.

Slíkar aðgerðir heimsveldanna mundu auka öryggi mannkyns. Yfirlýsingar um kjarnorkuvopnaleysi auka hins vegar öryggisleysið. Þær magna hina gömlu freistingu Kremlverja, að þeir þurfi ekki að taka þátt í afvopnun, af því að Vesturlönd muni bila á taugum.

Ráðamenn Sovétríkjanna hafa nú séð, að ráðamenn Bandaríkjanna ætla sér engan veginn að bila á taugum og sætta sig ekki við minna en virkt eftirlit. Við slíka vonarglætu spillir bara fyrir, að Norðurlönd séu að auglýsa hliðarspor yfirlýsinga um kjarnorkuleysi.

Hverjum hálfvita má vera ljóst, að ekki verður hægt á hervæðingu Kolaskaga, þótt Norðurlönd lýsi yfir, að eitthvað sé, sem er. Hins vegar er bráðskemmtilegt að víkka hugmyndina um kjarnorkuleysið og heimta, að það nái yfir Kolaskaga og raunar allt til Úralfjalla. Sjálfstæðisflokkurinn og upp á síðkastið einnig Alþýðuflokkurinn hafa það fram yfir aðra stjórnmálaflokka hér á landi, að þeir hafa haldið á loft kröfunni um, að kjarnorkuvopnaleysið nái út fyrir Norðurlönd, allt austur til Úralfjalla. Í slíku er ólíkt meira vit.

Á Kolaskaga og á svæðinu austur að Úralfjöllum er fullt af kjarnorkuvopnum, sem ekki eru á Norðurlöndum. Full þörf er á að losna við slík vopn. Það ræður ekki úrslitum um öryggi mannkyns, en er þó ólíkt vitrænna umræðuefni en kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd.

Gallinn er hins vegar, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki fylgja eftir Úralfjallastefnunni á norrænum vettvangi og skuli ekki reyna að fá hægri flokka á Norðurlöndum til fylgis við þá ágætu stefnu, sem hefur farið svo gleðilega í taugar nytsamra sakleysingja.

Þegar Anker Jörgensen heldur þingmannaráðstefnur um kjarnorkuvopnalaus svæði, á Sjálfstæðisflokkurinn að senda fjölmennt lið til að rökstyðja stefnu kjarnorkuleysis allt til Úralfjalla og gera grín að stefnunni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Það er létt verk.

Öll iðja, sem sýnir Kremlverjum, að ráðamenn á Norðurlöndum séu ekki að fara á taugum, hvetur þá fyrrnefndu til að leggja sitt af mörkum til heimsfriðar.

Jónas Kristjánsson

DV