Fjöllin vaxa á víxl

Greinar

Kjötfjöll Íslendinga eru nú komin upp í rúm 6000 tonn og hafa nærri tvöfaldazt frá því fyrir réttu ári, þegar þau voru 3500 tonn. Fjöllin nema nú sem svarar ársneyzlu 100 þúsund manna. Síðan er sláturtíð fram undan og þá verður slegið Íslandsmet í kjötfjöllum.

Tvennt hefur gerzt á þessum tíma. Til viðbótar við önnur kjötfjöll er nú komið hvalkjötfjall, sem nam um 1000 tonnum, þegar hlé var gert á veiðum um daginn. Ennfremur hefur ráðamönnum landbúnaðar tekizt að færa hluta af dilkakjötfjallinu yfir í önnur kjötfjöll.

Kindakjötfjallið er þó enn stærsta kjötfjallið og hefur raunar stækkað nokkuð frá sama tíma í fyrra. Þá taldist það 2635 tonn, en nemur nú 3200 tonnum. Næst að mikilfengleika kemur nautakjötfjallið, sem mældist 664 tonn í fyrra, og er nú komið upp í 1234 tonn.

Hið þriðja í röðinni er 1000 tonna hvalkjötfjallið nýja. Síðan er það fuglakjötfjallið, sem var 100 tonn og hefur farið upp í 500 tonn. Hrossakjötfjallið er svipað og áður, 89 tonn. Lestina rekur svínakjötfjallið, sem nam 33 tonnum í fyrra og er nú komið í 61 tonn.

Árið hefur einkennzt af tilraunum til að koma fjöllum í verð á víxl. Í febrúar var haldin dilkakjötútsala. Til að verjast henni lækkuðu kjúklinga- og svínabændur sitt kjöt í sama mæli. Niðurstaðan þá varð eins konar jafntefli, því að þjóðin torgaði ekki meiru en áður.

Aftur var útsala á dilkakjöti í sumar. Í það skiptið gátu kjúklinga- og svínabændur ekki keppt, enda njóta þeir ekki niðurgreiðslna, aukaniðurgreiðslna og viðbótarniðurgreiðslna eins og hinn hefðbundni landbúnaður. Þannig urðu til svína- og fuglafjöll.

Framleiðslustýringin á dilkakjöti beinist að þessu leyti mest að því að auka neyzlu þess á kostnað annars kjöts. Söluaukningin í sumar stafaði af verðlækkun, sem skattgreiðendur borguðu, en ekki af sjónhverfingunni um, að fóðurkálsfitukeppir væru fjallalömb.

Þetta hefur sogað annað kjöt inn í vandamálið. Til skamms tíma hafa svína- og kjúklingabændur látið verðsveiflur á markaði eyða birgðum jafnóðum. En þeir ráða ekki lengur við hörkuna í hinum hefðbundna landbúnaði, sem hefur fjármagn skattgreiðenda að baki sér.

Þjóðarleiðtogar, sem vildu baða sig í sól þjóðernishyggju hvalastríðsins, hafa svo fært okkur hvalkjötfjallið til viðbótar við önnur fjöll. Hin mikla neyzluaukning þess er farin að koma niður á neyzlu nautakjöts, unninna kjötvara og raunar alls kjöts.

Samningar, sem landbúnaðarráðuneytið hefur gert og er að gera fyrir hönd langhrjáðra skattgreiðenda við valdamiðstöðvar hins hefðbundna landbúnaðar, gera ráð fyrir, að ríkið ábyrgist sölu á miklu meira magni en það getur. Þess vegna vaxa fjöllin á víxl.

Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins munu herða kröfur sínar um að fá að stjórna allri búvöru í landinu eins og þessir aðilar hafa stjórnað afurðum kinda og kúa með hrottalega dýrum afleiðingum fyrir skattgreiðendur.

Undanfarin ár hafa ríkisstjórnir í vaxandi mæli látið skattgreiðendur koma til skjalanna á miðjum fjárlagaárum til að bjarga vandamálum af þessu tagi fyrir horn. Ástandið er nú verra en nokkru sinni fyrr og á eftir að verða enn verra á næsta ári. Fjöllin munu enn vaxa.

Eini kosturinn við þetta feigðarflan er, að það flýtir þeim degi, er kjósendur sameinast um að varpa af sér oki hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda.

Jónas Kristjánsson

DV