Árangur ofstjórnar

Greinar

Engri starfsemi í landinu er meira stjórnað en hinum hefðbundna landbúnaði kúa og kinda. Þar tróna landbúnaðarráðuneyti, búnaðarfélag, stéttarsamband og framleiðsluráð, sem búa til sjóði út og suður og setja á búmark, kvóta og núna síðast fullvinnslurétt.

Árangurinn er margfalt meira misræmi í framleiðslu og sölu búvöru en þekkist á nokkru öðru sviði. Kjötfjöllin eru samanlagt komin upp fyrir 6000 tonn, rétt fyrir 12000 tonna sláturtíð. Smjörfjallið og önnur mjólkurafurðafjöll halda einnig áfram að stækka.

Ofstjórnin hefur í orði hvatt til minni framleiðslu, en á borði stutt misræmið með hagstæðum lánum og styrkjum, til dæmis til byggingar fjósa og fjárhúsa, sem nú rúma tvöfalt fleiri gripi en markaðurinn þolir. Slíka fjárfestingu átti að vera búið að stöðva fyrir löngu.

Ein afleiðing ofstjórnarinnar er, að kúafjöldinn í landinu komst í fyrrahaust upp í hinn mesta, sem verið hefur í sögunni. Og fjölgunin varð ekki á þeim stöðum, þar sem helzt er markað að hafa, svo sem í Reykjavík. Þar fækkaði kúnum meira að segja í fyrrahaust.

Sömu sögu er að segja af Suðurlandsundirlendinu, sem helzt gæti verið mjólkurforðabúr markaðsins á Reykjavíkursvæðinu, bæði vegna nálægðar og sléttlendis, svo og vegna erfiðra aðstæðna fyrir sauðfé, sem er að eyðileggja illa farna afréttina.

Fjölgun kúa varð hins vegar mest allra lengst frá markaðnum, á Austfjörðum. Þetta endurspeglar ofskipulag af hálfu hinna fjölmennu stofnana, sem stjórna hinum hefðbundna landbúnaði, til dæmis með alls konar jöfnun, þar á meðal á flutningskostnaði.

Ofskipulag landbúnaðarráðuneytis, búnaðarfélags, stéttarsambands og framleiðsluráðs hefur víðar sviðið gróður landsins og fjárhirzlur þess, neytendur og skattgreiðendur. Það hefur meðal annars stuðlað að tilvist tvöfalt fleiri sláturhúsa en þarf í landinu.

Í þessu kerfi hafa menn komizt að raun um, að lækka megi sláturkostnað um 30% með fækkun sláturhúsa. Þeir hafa uppgötvað, að þetta eru dýr mannvirki, sem aðeins eru notuð brot úr ári. En þeir hafa í áratugi neitað að hlusta á þá, sem löstuðu ofskipulag þeirra.

Þessir sömu stjórnendur hins hefðbundna landbúnaðar hafa á síðustu árum ofskipulagt graskögglaverksmiðjur, sem sitja uppi með ársframleiðsluna, af því að þær framleiða tvöfalt meira en markaðurinn þolir. Það er enn einn árangurinn af hinu markvissa skipulagi.

Stjórnendur landbúnaðarins eru núna enn einu sinni að semja við sjálfa sig um framhaldið á ofskipulaginu. Ráðuneytið situr öðrum megin við samningaborðið og aðrar stofnanir landbúnaðarins hinum megin. Neytendur og skattgreiðendur koma hvergi nærri.

Afleiðingin er, að ríkið tekur að sér fyrir hönd forspurðra neytenda og skattgreiðenda að kaupa enn einu sinni miklu meira af kjöti og mjólk en hægt er að torga innanlands eða gefa útlendingum. Síðan fjúka milljarðarnir í niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur.

Ennfremur eru stjórnendur landbúnaðarins enn einu sinni að semja við sjálfa sig um, að árangur starfs þeirra í hinum hefðbundna landbúnaði nái smám saman yfir aðrar búgreinar, til dæmis kjúklinga, egg og svínakjöt. Afleiðingin er, að fjöll byrja einnig þar að hlaðast upp.

Á meðan eru fræðingar í þessu sama kerfi að birta skýrslur, sem segja, að bændum þurfi að fækka um helming og harðbýlli héruð að leggjast í eyði sem fyrst.

Jónas Kristjánsson

DV