Gerbreyttur markaður

Greinar

Gengisbreytingar á alþjóðamarkaði á þessu ári hafa gerbreytt verðhlutföllum í útflutningi íslenzkra fiskafurða. Bandaríkjamarkaður er ekki lengur áhugaverðasti markaðurinn, jafnvel þótt verð þar á frystum sjávarafurðum sé nú hærra en nokkru sinni fyrr.

Í fiskútflutningi hafa undanfarin misseri einkennzt af vel heppnuðum tilraunum til að festa íslenzkan fisk í sessi á öðrum markaði en freðfiskmarkaðnum í Bandaríkjunum. Sérstök áherzla hefur verið lögð á að endurlífga freðfiskmarkaðinn í Bretlandi.

Meiri bylting felst í hinni nýju áherzlu á ferskfisksölur. Menn eru farnir að átta sig á, að nútíma flutningatækni gerir kleift að ná ívíð hærra verði á ferskum fiski en næst á fiski, sem hefur farið með miklum viðbótarkostnaði um frystihús og frystigeymslur.

Í rauninni eru þetta gömlu ísfisksölurnar í nútímalegri mynd. Athyglisvert er, að löndunarbann Breta í fyrsta þorskastríðinu olli því á sínum tíma, að þessi markaður vék fyrir freðfiskmarkaðnum vestra, sem var bjargvættur okkar þá og hornsteinn æ síðan.

Nú hefur annars konar löndunarbanni verið veifað framan í okkur, í þetta sinn vegna hvalastríðsins. Bandarísk yfirvöld hafa íhugað að beita okkur viðskiptaþvingunum, sem líklega mundu felast í háum tollum á fiski eða hreinu innflutningsbanni.

Ef ferskfisksölur til Bretlands og fleiri landa eiga eftir að verða okkur hliðstæður bjargvættur og freðfisksalan til Bandaríkjanna varð á sínum tíma, má segja, að sagan hafi gengið í hring. Því meira, sem hlutirnir breytist, þeim mun meira séu þeir eins!

Vonandi komumst við að raun um, að Bretland er ekki eini ferskfiskmarkaðurinn, sem við getum haft gagn af. Verð á góðri vöru af því tagi er enn hærra í löndum á borð við Frakkland, þar sem meiri hefð er fyrir fersku gæðahráefni en á Bretlandi.

Mikilvægt er, að stjórnvöld leggi ekki stein í götu þess, að reynt sé að koma íslenzkum sjávarafurðum á annan markað en bandarískan freðfiskmarkað. Við verðum einmitt að dreifa áhættunni á marga staði meðan við eigum í útistöðum við Bandaríkin.

Tilgangslaust er að etja kappi við öflugan aðila um hvalveiðar, sölu kjötmetis til varnarliðs og flutninga á varnarliðsgóssi, nema hafa undirbúið króka á móti bragði. Ef við hyggjumst standa á okkar rétti, verðum við að geta mætt mótleikjum andstæðingsins.

Greinilegt er, að mikill meirihluti þjóðarinnar vill ekki sætta sig við afstöðu og gerðir bandarískra stjórnvalda í nokkrum málum okkar og allra sízt hótanir þeirra í hvalveiðideilunni. Einstakir ráðherrar hafa sagt, að þeir muni fylgja þessum vilja eftir í verki.

Þótt ekki kæmu til ágreiningsefnin, er varhugavert, hversu ákaft vex stuðningur vestra við atvinnuverndarstefnu, viðskiptaþvinganir gagnvart útlöndum og raunar hvers kyns einangrunarstefnu. Einnig þetta ætti að hvetja okkur til að dreifa áhættunni. Fisksölufyrirtæki okkar í Bandaríkjunum hafa staðið sig vel og eiga allt gott skilið. En aðstæður hafa breytzt svo róttækt á síðustu misserum og einkum síðustu mánuðum, að líklegt má telja, að þau verði að draga saman seglin og sætta sig við minni markaðshlutdeild.

Stjórnvöldum ber af öryggisástæðum að greiða fyrir breytingunum með því að styðja tilraunir til að finna nýja markaði og efla þá, sem nýlega hafa náðst.

Jónas Kristjánsson

DV