Innlendur markaður fyrir hefðbundnar búvörur hefur hægt og bítandi verið að dragast saman undanfarin ár og mun halda áfram að rýrna. Þetta leiðir til, að árlega minnkar magnið, sem ríkið ábyrgist fullt kaupverð fyrir. Þetta eykur mikinn vanda hefðbundnu greinanna.
Núverandi reglur gera í stórum dráttum ráð fyrir, að fullvirðisréttur hvers bónda skerðist frá ári til árs. Með þeim er þó reynt að takmarka meira framleiðslu stórbænda og vernda í þess stað framleiðslu smábænda. Þetta er gert af félagslegri ástæðu, byggðastefnu.
Heildarútkoman er, að sérhver bóndi verður árlega að draga saman seglin, minnka framleiðsluna. Það er tillag hans til að laga hinn hefðbundna landbúnað að litlum og minnkandi markaði. Hann fær sífellt minni tekjur til að greiða fjármagns- og rekstrarkostnað.
Hægt og sígandi eykur kerfið þannig fátækt kinda- og kúabænda. Um leið eflast kröfur um, að ríkið standi við lög um, að bændum séu tryggð sambærileg kjör við svonefndar viðmiðunarstéttir í þéttbýli. Kvótakerfið bindur því ekki fasta alla hina lausu enda dæmisins.
Þeirri skoðun hefur aukizt fylgi innan landbúnaðarins, að heppilegra sé að mæta samdrætti markaðsins með fækkun í bændastéttinni fremur en að skera niður tekjur hvers bónda. Þessi skoðun hefur meðal annars komið fram hjá Landssambandi sauðfjárbænda.
Formaður sambandsins segir, að það sé “alveg ljóst”, að bændur eru of margir. Ennfremur, að “óumflýjanlegt sé, að harðbýlli héruð leggist í eyði og að landbúnaður yrði framvegis stundaður á færri stöðum”. Sé þetta “hvorki óeðlilegt eða slæmt í sjálfu sér”.
Hliðstæð er niðurstaða viðamikillar skýrslu landnýtingarnefndar landbúnaðarráðuneytisins. Þar segir, að ekki sé grundvöllur fyrir starfi nema 20002500 kinda- og kúabænda í stað þeirra 4000, sem nú stunda þær greinar. Þeir séu nærri tvöfalt fleiri en þurfi.
Í niðurstöðum skýrslunnar segir einnig: “Margt bendir til, að byggð muni dragast saman víða um land, einkum í hinum afskekktari sveitum og þar sem aðstaða til búskapar er erfið, en styrkjast í og umhverfis þéttbýli”. Þetta sé aðlögun fremur en byggðaröskun.
Einn nefndarmanna, Hákon Sigurgrímsson, hefur sagt, að eftir 58 ár sé líklegt, að framleiðslan verði á um það bil 30 kúa eða 630 ærgilda búum. Þau bú, sem séu á 200400 ærgilda bilinu, séu hins vegar í mikilli hættu. Hinir stóru verði stærri, en hinir minni hætti.
Eðlilegast virðist að létta hömlum af þessari þróun með því að heimila verzlun með búmark og fullvinnslurétt. Vonlitlir bændur gætu þá komið kúa- og kindaréttindum sínum í verð og snúið sér að arðbærum störfum, sem eru næg í þjóðfélagi umframeftirspurnar.
Þeir bændur, sem eru nær því að teljast til stórbænda, gætu aftur á móti keypt sér réttindi til að auka framleiðsluna í það magn, að hún bæti framleiðni búsins og geri atvinnu bóndans tiltölulega arðbæra. Nú er slík verzlun hins vegar algerlega bönnuð.
Meðal ráðamanna landbúnaðarins er afar hörð andstaða gegn hugmyndum af þessu tagi. Þeir segja stórbændastefnuna forkastanlega og kvótaverzlun af hinu illa. Helzt vilja þeir, að ríkið þvingi fram samdrátt í öðrum kjötgreinum til að vernda markað kúa og kinda.
Sumarið hefur einkennzt af sókn hinna ungu með nýju stefnuna og gagnsókn hinna eldri með gömlu úrræðin. Skattgreiðendur ættu að fylgjast með deilunni.
Jónas Kristjánsson
DV