Við skulum beizla vindinn

Greinar

Við lítum á vindinn sem óvin okkar og fögnum hverjum sumardegi, sem færir okkur golu eða andvara í stað kalda eða hvassviðris. Stundum fárast fólk út af búsetu okkar á eyju í miðju Norður-Atlantshafi, þar sem vindar blási meira en í flestum öðrum mannvistarstöðum.

Við hugsum síður til þess, að vindur hefur líka sínar góðu hliðar, enda höfum við ekki vit á að nýta okkur þær. Við látum nágrönnum okkar Dönum eftir að gera vindinn að einni mikilvægra atvinnugreina landsins, þótt loftslag sé þar stórum lygnara en hér á landi.

Danir standa þjóða fremst í hönnun og framleiðslu vindmylla. Þeir eru töluvert farnir að nota vindmyllur til að framleiða rafmagn heima fyrir og selja auk þess grimmt til útlanda. Við sáum nýlega í sjónvarpinu merkar ráðagerðir um vindmylluvæðingu Borgundarhólms.

Þetta er aðeins byrjun á arðvænlegri framtíð. Fólk um allan heim er ekki síður en Íslendingar seint að átta sig á gildi vindsins sem orkugjafa. Menn átta sig ekki heldur á framförunum, sem hafa undanfarin ár valdið ört lækkuðum framleiðslukostnaði vindorku.

Sérfræðingar halda fram, að ekki séu nema fjögur ár, þangað til vindorkuverð verði komið niður í vatnsorkuverð. Um mitt ár 1990 verði þessar tvær orkulindir hinar ódýrustu í heimi, mun ódýrari en olía, kol og kjarnorka. Við ættum því að fara að sperra eyrun.

Vindurinn á það sameiginlegt með fallvötnunum, að ekki eyðist, þótt af sé tekið. Þess vegna er miklu meiri framtíð í slíkum orkuverum en í olíulindum, sem ganga til þurrðar hver af annarri, eða í kjarnorkuverum, sem hafa reynzt hin hættulegustu fyrirtæki.

Við höfum vafalaust talið, að við þyrftum ekki fleiri orkugjafa en fallvötnin og jarðhitann. Þar hefðum við takmarkalausa uppsprettu, sem mundi endast okkur um aldur og ævi. Það kann rétt að vera, en samt eru virkjunarmöguleikarnir takmarkaðri en margir telja.

Við höfum þá reynslu frá Blönduvirkjun, að orkuver og miðlunarlón vatnsafls kosta landfræðilegar breytingar, sem geta orðið afar dýrar, ef bændur standa fast á ýtrustu fjárkúgun. Og líklegt má telja, að frekar fjölgi en fækki Gullfossunum, sem við tímum ekki að virkja.

Einnig höfum við reynslu frá Hitaveitu Reykjavíkur, sem hefur sífellt þurft að leita víðar og fjarlægar til fanga, af því að fullvirkjað er í nágrenni Reykjavíkur. Hún er nú komin austur að Þingvallavatni með tilraunaboranir á Nesjavöllum og kaup á Ölfusvatni.

Við ættum því að beina athygli okkar betur að vindinum. Hann er orkulind, sem er nálæg hvarvetna á landinu og kostar ekki stórútgjöld til bænda eða annarra landeigenda. Hann er orkulind, sem er í þann veginn að verða jafn ódýr og vatnsorka og jarðvarmi.

Vindmylla hefur verið reist í tilraunaskyni í Grímsey. Hún hefur verið notuð þar til húshitunar og framleiðir um 30 kílóvött á sólarhring. Hún er íslenzk hönnun, gerð til að þola meiri vindstyrk en dönsku vindmyllurnar, hefur gengið á fullu í 12­14 stiga roki.

Nauðsynlegt er, að orkuráðherra, orkuráðuneyti og Orkustofnun sýni málinu meiri áhuga. Aðstæður okkar hæfa vel til notkunar vindmylla, bæði til rafmagnsframleiðslu og vatnshitunar. Þar á ofan eigum við að geta framleitt slíkar gersemar fyrir okkur og aðra.

Okkur er verðugt verkefni að beizla vindinn, okkar gamla óvin, bæta honum í hóp púlshestanna, spenna hann fyrir þjóðarkvörnina til að mala okkur gull.

Jónas Kristjánsson

DV