Þenslan hefnir sín

Greinar

Við erum komin á fremsta hlunn með að eyðileggja utanaðkomandi góðæri í þjóðfélaginu með of mikilli þenslu innanlands. Þenslan lýsir sér á ýmsum sviðum og boðar endurnýjuð vandamál á næsta ári, þegar olía er hætt að lækka og útflutningsverð hætt að hækka.

Þjóðhagsstofnun telur, að störf, sem fólk vantar til að sinna, nemi um eða yfir 2% af mannafla þjóðarinnar, meðan skráð atvinnuleysi er innan við 1%. Þessa umframeftirspurn vinnuafls má einnig sjá greinilega í smáauglýsingum og öðrum auglýsingadálkum dag blaða.

Við slíkar aðstæður er tiltölulega þægilegt fyrir ríkið að draga saman seglin, því að það veldur ekki atvinnu leysi eins og í mörgum öðrum löndum, þar sem skráð atvinnuleysi er um 10% af mannafla. Þar þarf ríkið að búa til atvinnu, en hér getur það losað um hana.

Ríkið getur þetta með því að draga úr umsvifum sínum og framkvæmdum, ­ með því að fresta þeim til þeirra ára, er atvinna minnkar á öðrum sviðum. Enn fremur með því að draga úr stuðningi við dulið atvinnuleysi í úreltum atvinnuvegi, ­ hinum hefðbundna landbúnaði.

Ríkisstjórnin gerir hvorugt, heldur tekur þátt í að magna spennuna. Það sést bezt af, að hallinn á ríkisbúskapnum mun nema 2,2 milljörðum króna á þessu ári. Þar á ofan er vitað, að mikill halli verður á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár.

Til þess að fjármagna þessa skaðlegu iðju hefur ríkið boðið upp vexti á innlendum markaði til að keppa við aðra aðila um fjármagnið. Þetta hefur stuðlað að háum vöxtum í landinu í ár og mun áfram gera það á næsta ári þrátt fyrir sjónhverfingar á síðustu vikum.

Þetta hefur ekki dugað ríkinu. Það hefur tekið mikið af lánum í útlöndum á þessu ári. Skuldabyrði þjóðarinnar mun því ekki lækka, þrátt fyrir góðærið. Er það mjög miður, að tækifærið skuli ekki vera notað til að létta hættulega stöðu þjóðfélagsins gagnvart útlöndum.

Launaskrið ársins stafar að verulegu leyti af þátttöku ríkisins í þenslunni, sem hefur aukið samkeppnina um það vinnuafl, sem beztar tekjur hafði fyrir. Hins vegar hafa hinir verst settu ekki haft eins góða aðstöðu til að lyfta sér upp úr hinu nakta taxtakaupi.

Þetta hefur aukið ójöfnuð í þjóðfélaginu. Annars vegar hefur aukizt sala á dýrum ferðalögum, dýrum bílum, dýrum rafmagnstækjum og dýrum íbúðum. Hins vegar hefur fjölgað þeim, sem leita ásjár félagsmálastofnana. Þetta er versta hliðin á góðærinu.

Þenslan, sem hér hefur verið lýst, mun á næsta ári verða hættulegur verðbólguhvati. Þá munum við ekki getað notað nýjar verðlækkanir á olíu og nýjar vaxtalækkanir í útlöndum til að minnka heimatilbúnu verðbólguna. Við eigum á hættu, að hún vaxi að nýju.

Fyrsta verðbólgukveikjan verður fjárlagafrumvarp, sem gerir ráð fyrir óbreyttri samkeppni ríkisins við afganginn af þjóðfélaginu um vinnuafl og peninga. Næsta verðbólgukveikja verður vinnustaðasamningar, sem gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari.

Þá verður farið að líða að kosningum að vori. Þá verða óhagstæðu þenslumerkin byrjuð að koma í ljós, þar á meðal vaxandi verðbólga. Þá verður ríkisstjórnin ekki eins viljug að veifa þjóðhagsspám og hún hefur nú verið. Og þá er hætt við rýrðum vinsældum hennar.

Ríkisstjórnin baðar sig ekki lengi í góðærinu, ef hún hefur ekki kjark til að hefja baráttu gegn þenslunni, sem annars mun leiða til vandræða á næsta ári.

Jónas Kristjánsson

DV