Aðalbólsháls

Frá fjallaskálanum Mönguhóli að Aðalbóli í Austurárdal.

Aðalbólsháls var lengi torleiði hið mesta. Allt þetta svæði er þakið tjörnum og flóum og illfærum mýrum. Þetta er dráttarvélaslóð, sem liggur ekki alveg á sama stað og gamla reiðleiðin, sem lá mest um ófærur í mýrum.

Þorsteinn Þorsteinsson frá Húsafelli segir svo í árbók FÍ 1962: “Í þá daga höfðu menn með sér reipi með lipurri högld á endanum, þegar farið var í smalamennsku og útreiðar. Þetta reipi var notað, þegar hrossin lágu í og gátu ekki losað sig. Því var brugðið utan um háls hrossins og dregið í högldina og togað í eins og afl mannsins leyfði. Þegar herti að hálsinum og hesturinn ætlaði að kafna, neytti hann allra krafta til að komast upp, og þetta dugði oft vel. Þetta hét að hengja hest upp úr feni.” Í bókinni segir hann frá svaðilför sinni á þessari leið, þegar hann missti margsinnis hestana niður í fenin á heiðunum milli Grímstungu og Aðalbóls.

Byrjum tveim kílómetrum sunnan við vegamót Víðidalstunguheiðar og Haukagilsheiðar, rétt sunnan Haugakvíslar. Við förum skamma leið suður og suðvestur að fjallaskálanum við Haugakvísl. Þaðan vestur að fjallaskálanum Bleikskvísl við Víðidalsá. Síðan liggur leið okkar suður að vötnunum Fimmmenningum. Þar endar dráttarvélaslóðin. Svo vestur um Aðalbólsháls til Aðalbóls í Austurárdal í Miðfjarðardölum.

23,6 km
Húnavatnssýslur

Skálar:
Haugakvísl: N65 08.719 W20 18.565.
Bleikskvísl: N65 09.400 W20 26.575
Mönguhóll: N65 09.149 W20 33.226

Nálægir ferlar: Haukagilsheiði, Suðurmannasandfell, Aðalbólsheiði.
Nálægar leiðir: Hraungarðar,Víðidalstunguheiði, Steinheiði.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort