Íslenzk stéttaskipting

Greinar

Algengt er, að í fjögurra manna fjölskyldu hafi heimilisfaðirinn 65 þúsund króna og húsmóðirin 35 þúsund króna mánaðartekjur. Hans tekjur eru tekjur fyrirvinnunnar og hennar eru viðbótartekjur, sem fást fyrir vinnu í ýmsum störfum, einkum svonefndum kvennastörfum.

Þetta er nálægt því að vera vísitölufjölskylda, hjón með tvö börn, samtals 3,66 manns að nákvæmni tölfræðinnar. Slík fjölskylda hefur einmitt 65 þúsund plús 35 þúsund eða samtals 100 þúsund króna tekjuþörf samkvæmt búreikningum, sem framfærsluvísitala byggist á.

Þessir reikningar segja til dæmis, svo að hinar nákvæmu tölur séu notaðar, að vísitölufjölskyldan noti 223.007,54 krónur á ári í mat og 143.111,68 krónur í rekstur bíls. Að meðtöldum sköttum fara heildarútgjöldin á ári upp í 1,2 milljónir króna, 100 þúsund á mánuði.

Ofangreind fjölskylda náði þessum tekjum með því að hafa tvennar tekjur, algengar fyrirvinnutekjur og algengar kvennastarfatekjur. Aðrar fjölskyldur ná þessum tekjum með því, að fyrirvinnan hefur svokallaðar hátekjur, um og yfir 100 þúsund krónur á mánuði.

Hátekjur geta fengizt með ýmsu móti. Sum menntun getur fært einstaklingum slíkar tekjur, einkum ef þeir starfa ekki hjá hinu opinbera. Ennfremur leiðir ábyrgð í starfi oft til hárra tekna. Einnig aðstaða, sem kann að byggjast á fjölskyldutengslum eða klíkuskap.

Ekki má heldur gleyma hinum mörgu, sem ná 100 þúsund króna vísitölutekjum með mikilli vinnu, yfirvinnu, ákvæðisvinnu eða bónus. Þannig geta 65 þúsund króna grunnlaun hæglega orðið að 100 þúsund króna tekjum, án þess að menn telji sig vinnuþrælkaða.

Þannig lifir meirihluti Íslendinga góðu lífi, með 100 þúsund krónur eða meira á mánuði. Þeir gera það í krafti þess, að heimilistekjurnar eru tvennar eða af því að þær eru hátekjur vegna menntunar, ábyrgðar, aðstöðu eða mikillar vinnu. Þetta er höfuðþjóð landsins.

Ekki getur fólk talizt fátækt, þótt vísitölutekjurnar náist ekki. Samkvæmt reikningsaðferðum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD byrja fátæktarmörkin hjá hjónum með tvö börn við 60 þúsund krónur á mánuði. Þar með er fjórðungur Íslendinga fátækur.

Kjararannsóknanefnd miðar við minni tekjur, enda veit hún sennilega betur en útlendingar, hvaða úrræði Íslendingar hafa til að lifa. Hún telur fátæktarmörkin vera við 45 þúsund króna mánaðartekjur hjá vísitölufjölskyldunni margnefndu, hjónum með tvö börn.

Þegar búið er að taka tillit til ýmiss mótvægis í kerfinu, svo sem skattafrádráttar og barnabóta, lækkar tala hinna fátæku. Einnig þarf að taka tillit til skattsvika, því að margir vel stæðir smáatvinnurekendur og einyrkjar hafa aðeins sultarlaun á pappírnum.

Að öllu samanlögðu er ekki fráleitt að ætla, að um tíundi hver Íslendingur búi við fátækt. Það er hin þjóðin, sú sem ekki tekur þátt í velsæld meirihlutans. Þetta eru einkum einstæðar mæður og fjölmennur barnahópur þeirra, en einnig margt aldrað fólk og öryrkjar.

Bilið milli hins vel stæða vísitölufólks og hinna fátæku í landinu hefur breikkað á undanförnum árum vegna þess að launaskrið hefur í auknum mæli tekið við af kauptöxtum. Kaupmáttur greiddra launa hefur staðið í stað, en kaupmáttur taxta minnkað um fjórðung.

Mikilvægasta réttlætismál nútímans og verðugasta stjórnmálaverkefni næstu ára er að minnka þetta bil á nýjan leik, svo að við getum aftur státað af stéttleysi.

Jónas Kristjánsson

DV