El País grætur­Ísland hlær

Greinar

Blaðamaður El País kom af fjöllum á ritstjórn DV á þriðjudag, þegar honum var sagt, að nóg væri af gistiherbergjum í bænum á 2.000 krónur. Þá hinn sama morgunn hafði blað hans í Madrid birt heilsíðugrein hans um húsnæðisokur í tengslum við toppfundinn.

Svo virðist sem menn El País hafi ekki frekar en ýmsir aðrir trúað á getu Íslendinga til að skipuleggja slík mál. Þeir útveguðu sér ekki húsnæði hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, þótt þeir fengju símanúmer þess hjá blaðafulltrúa íslenzku ríkisstjórnarinnar.

Í stað þess að nota hvíta markaðinn, sem öllum stóð opinn, kusu þeir að fara á svarta markaðinn og taka á leigu á okurverði íbúð þá illa frágengna, sem lýst var með áhrifamiklum hætti í harmagrein El País. Það var þeirra ákvörðun og þeir bera sjálfir ábyrgð á okrinu.

Fólk, sem er úti að aka, tapar peningum, hvar sem er í heiminum, bæði í Reykjavík og Madrid. Heppilegast er að fara ekki opinberlega að gráta út af því á heilli síðu, svo að síður verði tilefni aðhláturs annarra. Skynsamlegra er að reyna næst að vera betur með á nótunum.

Erlendir blaðamenn þurfa að vísu langt minni til að muna eftir Heimaeyjargosinu, þegar nærri 6000 manns var flutt á tveimur klukkustundum til meginlandsins og komið þar í húsaskjól. 2500 blaðamenn og 1000 embættismenn eru ekkert flóknara mál fyrir vana reddara.

Staðreyndin er, að fátt lætur Íslendingum betur en að vinna í skorpum. Bændur rífa upp hey sín á þremur þurrkavikum. Sjómenn leggja nótt við dag í aflahrotum. Hvorir tveggja taka það svo rólega þess á milli. Slík vinnubrögð einkenna líka aðra hópa þjóðfélagsins.

Líklega hefði ekki gengið miklu betur að skipuleggja toppfundinn í Reykjavík, þótt fyrirvarinn hefði numið sex mánuðum eða lengri tíma. Menn hefðu látið undirbúning dragast úr hömlu, lent í tímahraki og síðan unnið með sama hætti og gert er þessa dagana.

Fjarlægðir milli manna eru ennfremur svo stuttar, bæði í láréttum og lóðréttum skilningi, að hægt er með eins konar handafli forsætisráðherra að brjóta ótal lög og reglugerðir, án þess að nokkur embættismaður eða stjórnarandstæðingur vilji rísa upp til andmæla.

Þannig fjúka tollalög, fjarskiptalög og útvarpslög eins og ekkert sé, þegar hjálpa þarf erlendum fjölmiðlum. Ennfremur fjúka lög um útlendinga eins og ekkert sé, þegar hjálpa þarf erlendum öryggisvörðum. Mesta furða er, að bjórbannið skuli ekki hafa fokið líka!

Beðið er dögum saman eftir óljósum, þverstæðum og síbreytilegum upplýsingum heimsveldanna um, hvað þau vilji á hinum ýmsu sviðum. Svo einfalt atriði sem það, að hingað komi frá þeim 200 eða 900 menn, vefst fyrir þeim. En okkar menn bjarga öllu. Í núinu.

Grát og gífuryrði í fjölmiðlum á borð við El País og Bild Zeitung eigum við að láta okkur í léttu rúmi liggja. Þann vanda, sem þeir lentu í og lýst hafa, leystu okkar menn nánast áður en hann varð til. Á svipaðan hátt hefur líka ýmis annar vandi verið snaggaralega leystur.

Fjarskipti við umheiminn verða í sæmilegu horfi á toppfundinum, þótt ástandið væri einkar ófullkomið, þegar tekin var ákvörðun um fundinn. Öryggisvarzla virðist ekki aðeins verða fullnægjandi, heldur töluvert umfram það, Íslendingum til nokkurra óþæginda.

Flest bendir til, að afskipti íslenzkra aðila af undirbúningi toppfundarins verði til slíks sóma, að útlendingar telji mega halda hér fleiri mikilvæga fundi.

Jónas Kristjánsson

DV