Síðasta færinu glatað

Greinar

Um langt skeið hefur atvinnuleysi í landinu numið innan við 1% af mannafla þjóðarinnar, en laus störf verið yfir 2% af mannafla. Ísland er nánast einstakt samfélag í heiminum að þessu leyti. Annars staðar eru þessi hlutföll öfug, yfirleitt hastarlega öfug.

Þetta þýðir auðvitað, að meira en nóg er að gera á Íslandi. Þjóðin kemst ekki alveg yfir þau verkefni, sem hún hefur sett sér fyrir. Hún þarf því ekki að eyða orku sinni í dulbúið atvinnuleysi, heldur getur beint henni að arðbærum verkefnum. Ef hún raunverulega vill.

Þetta er ákaflega jákvætt, en ekki eingöngu þó. Hin neikvæða hlið er þenslan, sem fylgir umframeftirspurn. Hún veldur launaskriði, sem eykur bil kauptaxta og greiddra launa. Um leið stuðlar hún að því, sem alvarlegra er, verðbólgu, einum höfuðóvina okkar.

Þótt verðbólga sé ekki mikil um þessar mundir, blundar hún undir niðri og leitar færis til að ná sér upp á nýjan leik. Á þessu ári hefur nokkurn veginn tekizt að halda henni á hinum svonefndu rauðu strikum, sem samkomulag er um að ráði vinnufriði.

Ríkisstjórnin á að leitast við að halda verðbólgunni í skefjum, um leið og hún notar tækifærið til að draga úr dulbúnu atvinnuleysi. Það getur hún með því að lækka ríkisútgjöld og forðast á þann hátt að magna umframeftispurn þjóðfélagsins eftir starfskröftum.

Fjárlögin eru tæki ríkisstjórnarinnar í þessari viðleitni. Í fjárlagafrumvarpinu getur hún forðazt að styðja úrelta atvinnuvegi og forðazt að auka umsvif og framkvæmdir ríkisins. Þetta tæki notar hún alls ekki, heldur hefur hún þvert á móti slakað á aðhaldsklónni.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 1987 er gert ráð fyrir, að framkvæmdir hins opinbera aukizt um 6% frá fyrra ári. Þetta er kúvending eftir þriggja ára tímabil samdráttar opinberra framkvæmda. Á þessu ári nam samdrátturinn til dæmis tæpum 9% frá árinu áður.

Þetta þýðir, að á næsta ári hyggst ríkisstjórnin herða samkeppnina um starfskrafta landsmanna við atvinnulífið, sem á að standa undir þjóðartekjum og velmegun. Þetta þýðir, að hún leggur sitt lóð á vogarskál aukinnar þenslu og þar með nýrrar verðbólguhættu.

Samkvæmt þessu sama fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir, að 5% ríkisútgjaldanna eða rúmir tveir milljarðar króna verði notaðir til að halda uppi hinum hefðbundna landbúnaði. Þetta eru útflutningsuppbæturnar, niðurgreiðslurnar og fjölmargir beinir styrkir.

Þetta þýðir, að á næsta ári hyggst ríkisstjórnin hindra af sama krafti og áður, að dulbúið atvinnuleysi hins hefðbundna landbúnaðar breytist smám saman í arðbær störf, sem stuðla að hærri þjóðartekjum og aukinni velmegun. Fyrir þetta borgar hún tvo milljarða.

Skynsamlegra hefði verið á þessum tímum rúmlega fullrar atvinnu í landinu að draga úr framkvæmdum hins opinbera og draga úr styrkjum til hins hefðbundna landbúnaðar. Það mundi stuðla að arðbærum verkefnum, auknum þjóðartekjum og vaxandi velmegun.

Um leið hefði ríkisstjórnin með þeim hætti getað komizt hjá 1600 milljón króna halla á fjárlagafrumvarpinu. Hún hefði getað lagt fram hallalaust fjárlagafrumvarp. Þar með hefði hún líka dregið úr samkeppni um fjármagnið í landinu og stuðlað að lægri vöxtum.

Með fjárlagafrumvarpinu hefur ríkisstjórnin glatað síðasta tækifæri kjörtímabilsins til að beita ríkisfjármálunum til aukinnar hagsældar þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV