Frá Ferjufjalli við Jökulsá á Fjöllum um Mývatnsöræfi að Garði í Mývatnssveit.
Þegar menn fara þessa leið, er sennilega betra að taka jeppaslóð síðasta kaflann, þegar komið er að Hvannfelli. Þaðan er jeppaslóð vestur um Hraunnef og síðan norður með Hverfjalli vestanverðu og þaðan vestur á þjóðveg 1 við Vogaflóa.
Gömul alfaraleið, þegar ferja var við Ferjufjall sunnan Möðrudals og farið var um Ódáðahraun og Sprengisand milli landshluta. Í þá daga var Almannavegur hin almenna leið milli Norðurlands og Austurlands. Þá var þetta gróin leið og enn sjást vörður sums staðar. Síðar var ferjan færð norðar að Ferjuási og loks norður fyrir Grímsstaði á Fjöllum. Vegna landrofs er hraunið orðið naktara en það var áður og því orðið erfitt fyrir hesta.
Í Ljósvetningasögu segir: “Skal Þorsteinn og vér fimm saman fara Almannaveg vestur til [Vaðlaþings], en flokkurinn allur annar skal ríða fyrir ofan Mývatn [Biskupaleið um Ódáðahraun] til Króksdals og Bleiksmýrardals og svo fyrir neðan heiði.”
Förum frá Ferjuhyl á Jökulsá á Fjöllum suðaustan undir Ferjufjalli. Höldum norður með fjallinu austanverðu og norður fyrir það í Grafarlönd. Þar förum við yfir Grafarlandaá og síðan norðvestur yfir suðurenda Fremstafells og fyrir vestan Miðfell að Vörðukambi við Útigönguvegg. Þaðan áfram til norðvesturs fyrir norðaustan Veggjabungu. Áfram suðvestur í Þrengsli milli Búrfells að suðvestanverðu og Vestari-Skógarmannafjalla að norðaustanverðu. Þar förum við norður um Þrengsli og út um þau til vesturs fyrir norðan Búrfell og sunnan Olíufjall. Þaðan förum við áfram til vesturs fyrir norðan Hvannfell og vestur yfir jeppaveg, sem liggur suður í Bláhvamm og Heilagsdal. Við höldum áfram til vesturs fyrir norðan Villingafjall á jeppaslóð vestur að þjóðvegi 1 við Garð í Mývatnssveit.
60,0 km
Þingeyjarsýslur
Erfitt fyrir hesta
Nálægir ferlar: Öskjuleið.
Nálægar leiðir: Biskupaleið, Veggjafell, Heilagsdalur, Bláhvammur, Hverfjall.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort