Paul Watson sá, sem segist bera ábyrgð á skemmdarverkunum í Hvalfirði og Reykjavíkurhöfn, hefur að undanförnu stundað borgaralega kosningabaráttu í Vancouver í Kanada. Hann virðist öruggur með sig, þótt hann hafi látið vinna spellvirki í mörgum löndum.
Nafn Watsons birtist með reglubundnu millibili undir mótmælaskjölum með nöfnum virðulegra góðborgara í stjórn samtaka á borð við Alþjóða náttúruverndarsjóðinn, alveg eins og Watson hafi aldrei hrósað sér af að hafa sökkt skipum og stofnað til árekstra á hafi.
Paul Watson hefur skipulagt ýmis hryðjuverk gegn sjómönnum og tekið sjálfur þátt í sumum. Hann stjórnaði aðgerðum á Sea Shepherd í sumar, þegar skotið var línubyssum að gúmbátum færeysku lögreglunnar, reynt að kveikja í þeim og síðan að sigla þá niður.
Paul Watson hrósar sér ennfremur af að hafa sökkt einu dönsku skipi og tveimur spánskum. Eftir slík afreksverk situr hann á friðarstóli í Vancouver, dundar sér í stjórnmálum og skrifar undir skjöl með ekki minna frægum manni en Peter Scott.
Forvitnilegt væri að komast að, hvers vegna erlend stjórnvöld, sem eiga um sárt að binda vegna Watsons, hafa ekki gert alvarlegar tilraunir til að koma lögum yfir hann og helztu samstarfsmenn hans, svo sem Rodney Coronado, er fór héðan um síðustu helgi.
Getur verið, að stjórnvöld nágrannalandanna séu hrædd við Watson og lið hans, að þau vilji ekki abbast upp á hann af ótta við hefndaraðgerðir? Frammistaða ríkisstjórna gagnvart öðrum hryðjuverkamönnum bendir til, að slík hræðsla sé útbreidd á Vesturlöndum.
Vesturþýzk stjórnvöld létu lausa hryðjuverkamenn, sem frömdu ódæði á ólympíuleikunum í München. Ítölsk stjórnvöld létu Accille Lauro-hryðjuverkamann sleppa úr landi. Nú síðast hefur komið í ljós, að frönsk og bandarísk stjórnvöld makka við mannræningja.
Frakkar eru nýbúnir að fá leysta tvo gísla úr haldi, líklega í skiptum fyrir fangelsaða hryðjuverkamenn. Bandaríkjamenn hafa verið staðnir að því að bjóða Khomeini erkiklerki í skiptum fyrir gísla vopn til að nota í styrjöld Írans við Írak.
Schulz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mótmælti þessum viðskiptum, en varð að láta í minni pokann. Röksemd hans var hin rétta. Ef stjórnvöld láta mannræningja og hryðjuverkamenn kúga sig, kalla þau á endurtekna kúgun og verða þannig fangar glæpamanna.
Einn mesti hryðjuverkamaður heimsins um þessar mundir er Assad Sýrlandsforseti. Á vegum hans var gerð tilraun til að sprengja í loft upp farþegavél, sem var á leið frá London. Samt hafa vestrænar ríkisstjórnir tregðazt við að taka þátt í refsiaðgerðum gegn honum.
Assad tekur vel eftir þessari tregðu. Hann tekur líka eftir, að gott er að hafa jafnan handbæra í Beirút nokkra gísla af hverju þjóðerni, svo að unnt sé að skipta á þeim og útsendum hryðjuverkamönnum hans, sem hafa verið staðnir að verki í heimalöndum gíslanna.
Stjórnvöld, sem frelsa gísla með slíkum samningum, sæta því, að nýir gíslar séu teknir. Þau stjórnvöld verða t.d. að læra að sætta sig við, að geta ekki verndað borgara sína í útlöndum. Svipað yrðu okkar stjórnvöld að gera, ef þau takast á við glæpamenn á borð við Watson.
Rétt er að reyna að koma lögum yfir lið Watsons og gera sér jafnframt grein fyrir líklegum hefndaraðgerðum þeirra og ekki sízt, hvernig þeim verði mætt.
Jónas Kristjánsson
DV