Gorbatsjov hefur skipt um lepp í Afganistan. Í stað sjúklingsins Karmal hefur hann sett yfirmann leyniþjónustunnar, Nadsibúlla, sem kunnur er af að láta verkin tala. Í ríkjum Stóra bróður verður ástarmálaráðuneytið smám saman helzta uppspretta ráðamanna.
Gorbatsjov taldi sig þurfa grimmari lepp í Afganistan. Nánast öll þjóðin er andvíg hinum innlendu kommúnistum og innrásarliði Sovétríkjanna. Af 100.000 manna her landsins eru aðeins 30.000 eftir, flestir nauðugir. Hinir hafa flúið eða gengið í lið með þjóðinni.
Síðan Gorbatsjov komst til valda í Sovétríkjunum að undirlagi þarlendrar leyniþjónustu, hefur aukizt grimmdaræði 120.000 manna hers Sovétríkjanna í Afganistan. Er nú svo komið, að milljón manns hefur verið drepin og þriðjungur þjóðarinnar hefur flúið land.
Rauði herinn gerir engan greinarmun á skæruliðum og þorpsbúum. Sjónarvottar hafa lýst, hvernig skriðdrekar leggja í eyði hvert þorpið á fætur öðru, fyrst með skotárásum og síðan með því að jafna það við jörðu. Uppskera er eyðilögð og áveitum spillt.
Fólk, sem finnst á lífi, er drepið með því að rista það á kviðinn. Í mörgum tilvikum sætir það hroðalegum pyntingum, sem raktar hafa verið í skýrslum frá Amnesty og sérstakri nefnd Sameinuðu þjóðanna. Fyrir öllu þessu stendur hinn brosmildi Gorbatsjov.
Sérgrein Rauða hersins og sérstök uppfinning hans er að koma sprengjum fyrir í leikföngum, sem dreift er úr flugvélum. Þannig hefur Gorbatsjov tekizt að gera tugþúsundir afganskra barna að öryrkjum. Norskir læknar hafa rakið þessa viðbjóðslegu hernaðaraðferð.
Fá dæmi eru um slíka villimennsku í hernaði. Pol Pot hefur hugsanlega hagað sér verr í Kampútseu, en örugglega ekki Hitler í síðari heimsstyrjöldinni. Enda hefur Rauði herinn að markmiði í Afganistan að útrýma þjóðinni með því að drepa hana eða hrekja úr landi.
Gorbatsjov hyggst ná Afganistan á sitt vald, með eða án íbúa. Í augum ráðamanna Sovétríkjanna er Afganistan viðbót við land. Það land má síðan nema, eins og Síbería var numin á sínum tíma. Aðalatriðið er, að Sovétríkin stækki og verði minna innilokuð en áður.
Stöðvuð hefur verið sókn Sovétríkjanna til vesturs eftir Evrópu og til austurs á landamærum Kína. Við suðurlandamærin hafa nágrannarnir verið veikari fyrir. Þess vegna eru Sovétríkin að leggja Afganistan undir sig. Síðan kemur Íran og aðgangur að Indlandshafi.
Gorbatsjov hefur hert útrýmingarstríðið í Afganistan, alveg eins og hann hefur eflt ofsóknir gegn mannréttindasinnum heima fyrir, þrengt möguleika Sovétmanna á að flytjast til útlanda og lagt aukna áherzlu á, að Austur-Evrópa dansi á réttri línu.
Hinn brosmildi og hugljúfi Gorbatsjov er grimmasti og gráðugasti leiðtogi Sovétríkjanna, að minnsta kosti síðan Stalín féll frá. Hann er jafnframt sá hættulegasti, af því að hann hefur lag á að telja vestrænum friðardúfum trú um, að hann hafi góðan vilja.
Hann er maðurinn, sem lætur eyðileggja afkomu afganskrar alþýðu, rústa heimili hennar, misþyrma henni, gera börn hennar að öryrkjum, drepa hana eða hrekja úr landi. Hann er eins gersamlega samvizkulaus og nokkur glæpamaður getur verið, verri en Hitler.
Því miður virðast Vesturlandabúar ætla að vakna seint til vitundar um útrýmingarstríðið í Afganistan og til öflugrar hreyfingar gegn þjóðarmorðinu.
Jónas Kristjánsson
DV