Berufjarðarskarð

Frá Jórvíkurstekk í Breiðdal um Berufjarðarskarð að Berufirði.

Forn leið, sem víða hefur verið löguð til með hleðslum, enda fjölfarin póstleið. Mikið og gott útsýni er úr skarðinu.

Um leiðina segir m.a. í Árbók FÍ 2002: “Upp með Vegagili að utan liggur gömul þjóðleið yfir Berufjarðarskarð … Frá Berufirði liggur slóðin eftir melrinda nánast beint upp af bæ, á Sótabotnsbrún rétt utan við Sótabotn og áfram innan við Svartagilsstafn út og upp í skarðið. Er leiðin vörðuð frá brún Svartagils langleiðina að Póstvaði á Breiðdalsá gegnt Höskuldsstöðum … Helsta hindrun á leiðinni, einkum með hesta undir burði, var Breiðdalsmegin í Kinnargili, sem gengur vestan úr Skarðsgili ofanverðu. Gefur þar enn að líta grjóthleðslu frá vegabótum … seint á 19. öld.” Bæklingur er til um leiðina með nákvæmri leiðarlýsingu.

Förum frá þjóðvegi 1 við eyðibýlið Jórvíkurstekk í Breiðdal. Förum þaðan suðvestur yfir dalinn og síðan suður á Berufjarðarskarð milli Berufjarðartinds að norðvestan og Flögutinds að suðaustan. Þar erum við í 690 metra hæð í skarðinu. Förum síðan suðvestur í Hrútabotna og þaðan suður fyrir vestan Sótabotn niður að bænum Berufirði í Berufirði.

8,2 km
Austfirðir

Nálægar leiðir: Hornbrynja, Fagradalsskarð.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Herforingjaráðskort