Gamalt er betra en nýtt

Greinar

Nokkur gömul hús og mannvirki hafa fengið að vera í friði fyrir ásókn skýjakljúfa rétt hjá Wall Street í New York. Svæði þetta, sem heitir South Street Seaport, er orðið að vinsælasta ferðamannastað borgarinnar og einnig að einu af helztu verzlunarhverfum hennar.

Nokkrum dauðvona fiskiplássum í Maine í Bandaríkjunum hefur verið breytt í ferðamannastaði. Frískað hefur verið upp á gamla beitingaskúra og verbúðir og þeim breytt í krár, veitingahús og verzlanir. Fólk flykkist að úr fjarlægum héruðum til að njóta umhverfisins.

Reglan í Bandaríkjunum er að verða hin sama og í Evrópu. Hún er sú, að því eldri og fátæklegri sem húsin eru, þeim mun betra. Þau draga að sér mannlíf, veitingarekstur og viðskipti. Fólk er alveg hætt að hafa áhuga á að rífa gömlu húsin, sem áður voru kölluð kofar.

Í Kvosinni í Reykjavík hefur verið komið upp líflegum veitingarekstri í notalegu umhverfi, ekki í gler- og álhöllum, heldur í gömlum og fátæklegum kofum, sem einu sinni átti að rífa. Fólki líður vel í Torfunni, Lækjarbrekku, Fógetanum, Duus-húsi og Gauki á Stöng.

Þrátt fyrir viðvaranir hefur skipulagsnefnd borgar stjórnar Reykjavíkur samþykkt af Kvosinni skipulag, sem gerir ráð fyrir að ýmis gömul hús verði rifin eða gerð að Pótemkin-tjöldum framan við glerhallir. Vonandi grípur borgarstjórnin í taumana í tæka tíð.

Það á ekki að rífa gömlu og fátæklegu kofana í bænum. Miklu frekar á að rífa nýju og ljótu húsin, sem reist hafa verið síðan um stríð, þegar smekkvísi lagðist niður í byggingarlist á Íslandi. Það á að rífa eða lækka hús á borð við Nýja Bíó og Iðnaðarbankann.

Nóg er komið af misþyrmingum á gamla bænum. Útvegsbankinn og Landsbankinn hafa verið eyðilagðir á afkáralegasta hátt. Gamli Landspítalinn er að hverfa inn í skóg ótal byggingarstíla, þar sem hvert nýtt hús hefur verið teiknað í tillitsleysi við það, sem fyrir var.

Úrelt er orðið að skammast sín fyrir fátækleg hús frá þeim tímum, er þjóðin hafði ekki efni á að byggja hallir úr áli og gleri. Fólk er farið að viðurkenna, að einmitt gömlu húsin glæða bæinn lífi, meira að segja viðskiptum og gróða. Þess vegna á að vernda öll gömul hús.

Við sáum um daginn, að skammsýnir ráðamenn alþingis hafa verðlaunað teikningu að feiknarlegum alþingiskassa í bankakassastíl. Þessi ljóti kassi á að koma í stað nokkurra gamalla, fátæklegra og fallegra húsa við Kirkjustræti ­ og búa til stormgjá í Kvosinni.

Þarna er í uppsiglingu eitt mesta stórslysið í Kvosinni, alvarlegasta dæmið um, hversu lengi sumir eru að átta sig á hinni almennu reglu, að hið gamla er betra en hið nýja. Reykvíkingar verða með öllum tiltækum ráðum að hindra, að alþingiskassinn verði að veruleika.

Út frá sömu reglu má fastlega gera ráð fyrir, að ráðhúsið, sem reisa á við Tjörnina á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu, verði ljótara og líflausara en húsið, sem þar stendur nú. Það væri nær að lagfæra gamla húsið eins og svo mörg niðurnídd hús í miðbænum.

Borgarbúar um allan heim mundu nú gefa mikið fyrir að eiga gömlu miðbæina sína og helzt elztu miðbæina sína. Alls staðar grætur fólk tillitsleysi hönnuða og bankastjóra, sem hafa reist bankakassa úr gleri og áli ofan í gamla miðbæi og rúið þá lífi og fegurð.

Tillaga skipulagsnefndar að Kvosinni felur í sér skammsýnt framhald á harmleik Austurstrætis, sem búið er að gera að stormgjá ömurlegra bankakassa.

Jónas Kristjánsson

DV