Bjargtangar

Frá Urðarhjalla á Látraheiði um Látrabjarg og Bjargtanga að Hvallátrum í Látravík.

Gæta þarf varúðar á bjargbrúnum. Ekki er ráðlegt að fara með hesta þessa leið.

Í Geldingsskorardal fórst togarinn Dhoon árið 1947. Um björgun skipverja var gerð sögufræg kvikmynd. Bjargtangar eru vestasti oddi Evrópu. Látrabjarg er víðáttumesta sjávarbjarg landsins, fjórtán kílómetra langt og 440 metra hátt við Heiðnukinn. Það er og eitt þéttasta fuglabjarg heims.

Byrjum á vegarslóða yfir Látraheiði, þar sem hann er hæstur norðan við Urðarhjalla í 360 metra hæð. Förum þaðan vestur fyrir hjallann og síðan að Klofavörðu. Þaðan ofan í Látradal að vegarslóða í Geldingsskorardal og út á Bæjarbjarg. Síðan fylgjum við bjargbrúnnni til vesturs. Fyrir Djúpadal og um Heiðnukinn í 440 metra hæð og niður með Saxagjá. Loks vestur eftir Látrabjargi fram á Bjargtanga. Þaðan förum við eftir jeppaslóð norðaustur um Bása og Seljavík, fyrir Brunnanúp og loks norðaustur um Látravík að Hvallátrum.

14,4 km
Vestfirðir

Ekki fyrir hesta

Skálar:
Bjargtangar: N65 30.180 W24 31.843.

Nálægar leiðir: Látraheiði, Látraháls.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort