Því miður hefur Reagan Bandaríkjaforseti ákveðið að framkvæma hótun sína frá í vor um að hverfa frá hinu undirritaða en óstaðfesta SALT-samkomulagi við Sovétríkin frá árinu 1979 um ákveðnar takmarkanir á fjölda langdrægra kjarnorkueldflauga.
Þessi ákvörðun kemur í kjölfar ýmissa tilrauna forsetans til að víkjast undan árangrinum, sem náðist á toppfundi hans og Gorbatsjovs, flokksleiðtoga í Sovétríkjunum, í Reykjavík í síðasta mánuði. Sú braut, sem forsetinn hefur fetað eftir toppfundinn, er ógæfuleg.
Að sjálfsögðu verða menn jafnan að gæta sín til hins ýtrasta, þegar reynt er að semja við óargaríki á borð við Sovétríkin. En ekki dugar að hlusta bara á herforingja og hergagnaframleiðendur, sem halda fram ýktum kenningum um hernaðarmátt Sovétríkjanna.
Rangt er til dæmis, að yfirburðir Sovétríkjanna í hefðbundnum vopnabúnaði séu svo eindregnir, að Reagan Bandaríkjaforseti neyðist til að hörfa til baka frá ófullgerðu samkomulagi toppfundarins um stórfelldan niðurskurð kjarnorkuvopna af öllu tagi.
Á síðustu vikum hefur smám saman verið að koma í ljós, að forseti Bandaríkjanna er ekki nógu hæfur leiðtogi. Íslendingar fengu smjörþefinn af því í sjónvarpinu, þegar hann flutti kveðjuræðu sína við brottförina frá Keflavíkurflugvelli eftir toppfundinn í Reykjavík.
Hann talaði þar á lágu plani, rétt eins og hann væri í framboði til sveitarstjóra á Keflavíkurflugvelli, sagði nokkra fúla brandara og var rokinn. Þetta var í skarpri andstöðu við áherzluþungan blaðamannafund Gorbatsjovs, hins snjalla áróðursmeistara Sovétríkjanna.
Síðan hefur forsetinn verið staðinn að alvarlegum dómgreindarskorti í leynilegum samskiptum við grimmdarstjórn klerkanna í Persíu. Hann lét senda þangað vopn í skiptum fyrir gísla. Samt eru hinir bandarísku gíslar í Miðausturlöndum jafnmargir og áður.
Augljóst er, að tilgangslítið er að kaupa gísla. Mannræningjarnir taka bara nýja gísla fyrir hina gömlu og hækka verðið. Gíslar eru eins konar stríðsfangar. Heimsveldi mega ekki hafa svo mikla samúð með þeim, að alþjóðlegum hagsmunum ríkisins sé stefnt í voða.
Steininn tók svo úr, þegar upp komst, að hluti bandarísku vopnanna hafði raunar verið seldur Persíuklerkum fyrir peninga, sem lagðir voru inn á bankareikning glæpamanna, svokallaðra Contra-skæruliða, er Reagan vill, að steypi ríkisstjórninni í Nicaragua.
Þessi fáránlegi vopnaþríhyrningur var skipulagður í kjallara Hvíta hússins og framkvæmdur á þeim tíma, er slíkur stuðningur við Contra var ólöglegur. Ennfremur varðaði hann við ýmis lög um samráð við bandaríska þingið, utanríkis- og varnarmálaráðuneytin.
Komið hefur í ljós, að Reagan hefur safnað um sig hirð undirmálsmanna, sem haga sér í utanríkismálum eins og fílar í glervörubúð. Fremstur fer þar starfsmannastjóri Hvíta hússins, yfirmaður öryggismálanefndar þess, svo og yfirmaður leyniþjónustunnar.
Nú er allt á hvolfi í Bandaríkjunum. Þingið og fjölmiðlarnir eru komnir á fulla ferð við að róta í fjóshaug forsetans. Alvarlegast er, að almenningur, sem hingað til hefur treyst honum, er að ganga af trúnni. Reagan hefur tæmt hinn ótrúlega mikla vinsældakvóta sinn.
Gamalmenni, sem nennir ekki að kafa sjálfur í málin og treystir á dómgreind jámanna, lendir fyrr eða síðar í vandræðum, sem ekki verða göldruð burt með brosi.
Jónas Kristjánsson
DV