Dapurleg var útkoma svonefnds verkalýðsarms í forvali Alþýðubandalagsins í Reykjavík um síðustu helgi. Hið hefðbundna annað sæti náðist ekki. Framkvæmdastjóri Dagsbrúnar lenti í sjötta sæti og forseti Alþýðusambandsins tók land í hinu þriðja.
Ekki munaði ýkja miklu, að Ásmundur Stefánsson hafnaði í fjórða sæti og Þröstur Ólafsson í hinu sjöunda. Þeir máttu raunar teljast heppnir, að ekki fór verr. Ásmundur getur þó varpað öndinni léttar, því að hann náði sæti, sem telja má öruggt þingsæti.
Sú spurning hlýtur að verða áleitin, hvort alþýðubandalagsfólk sé ekki eins og annað fólk tiltölulega efagjarnt í garð manna, er bjóða sig fram til stjórnmála sem umboðsmenn öflugra hagsmunasamtaka, og hafi viljað vekja athygli þeirra félaga á þessum efasemdum.
Það liggur í augum uppi, að hagsmunaágreiningur hlýtur að geta orðið milli þingmannsefnanna Ásmundar Stefánssonar og Þrastar Ólafssonar annars vegar og verkalýðsleiðtoganna Ásmundar Stefánssonar og Þrastar Ólafssonar hins vegar.
Svo virðist einmitt sem pólitískar framavonir þessara tveggja forvalsframbjóðenda hafi haft umtalsverð áhrif á gang kjarasamninga. Ef þeir hefðu ekki verið í samkeppni í forvali, hefðu ekki orðið þau læti, sem urðu í samningaviðræðunum í síðustu viku.
Segja má, að Dagsbrúnarmenn hafi byrjað darraðardansinn með því að kvarta yfir því þegar á miðvikudaginn var, eftir aðeins tveggja daga samningaviðræður við atvinnurekendur, að þessar viðræður væru komnar í stöðu, sem væri Dagsbrún mjög á móti skapi.
Síðan var bætt um betur með því að koma á framfæri, að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið hefðu í nokkra daga verið með á borði sínu drög að samkomulagi um hækkun lágmarkslauna upp í 25.000 krónur gegn eftirgjöf af væntanlegri desemberhækkun.
Frétt um þetta fannst Ásmundi Stefánssyni vera stefnt gegn sér sem frambjóðanda í forvali Alþýðubandalagsins. Hann óttaðist, að samkomulagsdrögin yrðu notuð gegn sér í forvalinu. Hann beinlínis trylltist, svo sem sjá mátti og heyra í fjölmiðlum á föstudag.
Þannig var ekki lengur hægt að tala af viti í bili um kjarasamninga. Allt gekk út á forval Alþýðubandalagsins, hvaða verkalýðsfulltrúi væri þar að grafa undan hvaða verkalýðsfulltrúa. Menn komust ekki niður á jörðina aftur fyrr en að lokinni talningu.
Eftir talninguna er ljóst, að Dagsbrún liggur í meiri sárum en Alþýðusambandið. Meðal annars þess vegna er Dagsbrún farin heim í fýlu, meðan önnur félög Verkamannasambandsins og öll stjórn þess, nema Guðmundur J. Guðmundsson, halda áfram samningaviðræðum.
Öll þessi atburðarás lyktar af því, að gangur heildarkjarasamninga á vinnumarkaði sé meira eða minna að mótast af þörfum nokkurra manna, sem telja sig þurfa meiri völd í þjóðfélaginu en þeir hafa sem forustumenn í stéttarfélögum og samtökum þeirra.
Hitt er svo líklegt, að daufa útkomu beggja leiðtoganna í forvali Alþýðubandalagsins megi að nokkru leyti skilja sem skilaboð frá kjósendum forvalsins um, að þeir hafi fyrir helgina verið staðnir að hagsmunaárekstri forvals og kjarasamninga.
Í þessu sem öðru reynist mönnum erfitt að þjóna tveimur herrum og verða svo sárreiðastir, þegar bent er á tvískinnunginn í afstöðu þeirra og viðbrögðum.
Jónas Kristjánsson
DV