Rífum nýju húsin

Greinar

Hin gagnlega umræða um skipulag Kvosarinnar hefur leitt í ljós, að unnt er að setja tiltölulega einfaldar og skýrar línur um æskilegt skipulag hennar. Flestar, ef ekki allar, ganga í berhögg við úreltar hugmyndir, sem borgarstjórnin er að velta fyrir sér.

Fyrsta reglan er að setja tímamörk við árið 1950. Öll hús Kvosarinnar, sem eru eldri, skuli verða gerð upp með tilliti til upprunalegrar fegurðar þeirra. Öll hús, sem eru yngri, skuli rifin eða lækkuð og máluð lítt áberandi litum, svo að ófríðleiki þeirra ami okkur síður.

Ef Jónassenshúsið að Lækjargötu 8 væri fært í upprunalegt horf frá 1870, yrðum við einu fallegu húsi ríkari. Ef Nýja bíó yrði rifið, yrðum við einu ljótu húsi fátækari. Þannig má rekja slóðina um Lækjargötu, Austurstræti, Aðalstræti og Kirkjustræti.

Önnur reglan er að fækka akreinum í Kvosinni og gera sprengjuheldar bílageymslur inni í Arnarhól og undir ýmsum auðum lóðum í næsta nágrenni Kvosarinnar. Það forðar okkur frá hörmulegum bílageymsluhúsum og aflar aðstöðu fyrir stjórnvöld á stríðstímum.

Flestum má vera ljóst gildi þessarar reglu. Hún verndar Tjörnina í núverandi stærð, dregur úr bílaumferð um Kvosina og auðveldar akandi fólki að komast í verzlanir og þjónustu gamla bæjarins. Um þetta geta kaupmenn og aðrir borgarar verið sammála.

Þriðja reglan er að reka bankana úr Kvosinni og senda þá í útibú þeirra hér og þar í bænum. Nútíma tölvu- og símatækni gerir þetta kleift. Seðlabankann mætti senda upp á Sprengisand, ef hann verður þá ekki lagður niður í sparnaðar- og ábataskyni fyrir þjóðina.

Hins vegar mega elztu hlutar Landsbankans og Útvegsbankans halda sér, enda teiknaðir á tímum hinnar listrænu smekkvísi, sem felst í hófsamlegum stærðum. Marmaraskúrinn við austurhlið Landsbankans mætti rífa á nýársnótt, Reykvíkingum til fagnaðar.

Fjórða reglan er að koma hinum fyrirhugaða alþingiskassa fyrir undir Austurvelli. Hann má hafa sprengjuheldan, svo að Alþingi geti áfram gefið út lög og ályktanir um áhugamál sín, þótt styrjaldir geisi. Hins vegar á að láta í friði gömlu húsin við Kirkjustræti.

Skilyrði fyrir þessu er þó, að framkvæmdir verði háðar að vetrarlagi og standi aðeins í sex mánuði. Ef íslenzkir verkfræðingar og verktakar mikla þetta fyrir sér, má ráða til þess starfsbræður þeirra frá New York, sem mundu leika sér að þessu verki á þremur mánuðum.

Fimmta reglan er, að almennt verði hinar reglurnar látnar gilda um allan gamla bæinn innan Hringbrautar og Snorrabrautar, þar á meðal Skuggahverfið, sem borgarstjórnin vill eyðileggja. Ekki þarf langa göngu um svæðið til að sjá, að almennt eru hús því fallegri, sem þau eru eldri, og því ljótari, sem þau eru yngri.

Helzta undantekningin er, að gott væri að byggja glerþak yfir ásinn frá Hallærisplani til Hlemmtorgs, svo að Reykvíkingar geti verzlað í góðu veðri allan ársins hring. Við þyrftum þá ekki að hlaupa upp í vindinn og regnið milli búða, heldur gætum gefið okkur góðan tíma.

Þessar reglur, sem hér hafa verið skráðar, eru betra veganesti borgarstjórnar en hinar fáránlegu skipulagshugmyndir um hollenzk síkishús við stormgjár, sem hún er að velta fyrir sér þessa dagana.

Að lokum má benda borgarstjóranum á, að kjörið er að hlífa Tjörninni við ráðhúsi og kaupa í staðinn elztu hluta Landsbankans eða Útvegsbankans fyrir ráðhús.

Jónas Kristjánsson

DV