Óhóflegt sjálfstraust

Greinar

Tilraun Davíðs Oddssonar til að selja ríkinu Borgarspítalann felur í sér ýmis mistök. Önnur af tveimur þeirra alvarlegustu er að vanmeta almenna andstöðu reykvískra flokksbræðra sinna gegn útþenslu ríkisbáknsins. Sú andstaða hefur skýrt komið fram í vikunni.

Margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins spyrja, hvers vegna borgarstjóri þeirra hafi skipt um skoðun frá því í kosningunum og tekið upp á sína arma kosningamál Framsóknarflokksins, sem hann gerði grín að. Fólk telur Davíð ekki sjálfum sér samkvæman.

Hin stóru mistökin eru ekki síður alvarleg. Þau eru að klúðra málinu, svo að það nái tæpast fram að ganga. Kjósendur Davíðs taka nefnilega í mesta lagi einn hlut fram yfir hugsjónina gegn ríkisrekstri. Það er, að forustumönnum þeirra takist sæmilega að ná sínu fram.

Svo virðist sem borgarstjórinn hafi verið svo fullur sjálfstraust, að hann hélt, að hann gæti upp á sitt eindæmi selt Borgarspítalann án þess að tala við kóng eða prest. Hann þyrfti ekki samþykki borgarstjórnar og enn síður samráð við fjölmennt starfslið sjúkrahússins.

Sennilega hefur Davíð miklast af því, hve auðvelt honum hefur reynzt hingað til að taka mikilvægar ákvarðanir á borð við að afhenda fasteignasölu lóð í miðbænum og kaupa lóðir og lönd af gömlum vinum flokksins. Loksins fór svo, að hann kunni sér ekki hóf.

Þá hefur hann ofmetið getu ráðherra til að kaupa Víðishús og Mjólkurstöðvar framhjá fjárlögum og án nokkurra heimilda. Það fór líka svo, að fyrirhuguð kaup á Borgarspítala fóru yfir mark hins mögulega að mati hluta þingflokksins, sem mótmælti á kvöldfundi.

Davíð situr nú uppi með að hafa meira eða minna í kyrrþey reynt að framkvæma stefnu Framsóknarflokksins án þess að flokksbræður hans í ríkisstjórn geti leyft sér að kaupa. Hann sé ekki lengur sá kraftaverkamaður, er nái öllu fram, sem hugurinn girnist.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa af eðlilegum ástæðum tekið vel í söluna og vitna til þess, að upprunalega hafi hún verið kosningamál reykvískra framsóknarmanna. Hins vegar hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins fundið hina eindregnu óánægju sinna manna.

Margt má læra af þessu. Eitt er, að skyndisókn gengur ekki, nema hún sé framkvæmd af sama hraða og kaupin á Olísbréfunum. Ef þau hefðu tekið meira en helgi, hefðu þau verið stöðvuð, alveg eins og Davíð hefur nú verið stöðvaður, af því að hann var of seinn.

Annað er, að ekki er gulltryggt, að einræðisaðferðir nái alltaf árangri, þótt það takist nokkrum sinnum. Jafnvel borgarstjórar og ráðherrar verða að sæta því, að völd þeirra eru ekki fullkomin. Svo getur farið, að hefðbundnar lýðræðisleiðir séu gagnlegri.

Flestir, sem um Borgarspítalamálið hafa fjallað, eru sammála um, að Davíð hafi staðið of geyst að málum. Ennfremur, að málið sé komið í slíkt óefni, að affarasælast sé að fresta framkvæmdinni um eitt ár, meðan allir málsaðilar séu að ná áttum í því.

Um viðskipti með spítala á að gilda hin sama regla og ætti líka að gilda í viðskiptum með Víðishús og Mjólkurstöðvar, lóðir í Skuggahverfi og lönd í Grafningi, að heppilegast er að gefa sér tíma til að fara eftir lögum, reglugerðum og ekki sízt almennum siðvenjum.

Sagt er, að allt vald spilli og alræðisvald gerspilli. Við höfum hins vegar séð dæmi um, að það getur ruglað valdhafann og valdshyggjumanninn í ríminu.

Jónas Kristjánsson

DV