Hálf veltan er tap

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja 28 milljón króna nýtt hlutafé í Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki, sem er ein hinna frægu framkvæmda, er ríkið hefur staðið fyrir eða tekið þátt í, þrátt fyrir aðvaranir beztu manna um, að dæmið geti ekki gengið upp.

Orkuverið við Kröflu er venjulega tekið sem merkasta og dýrasta dæmið um gæludýr af þessu tagi. Einnig má nefna Þörungavinnsluna á Reykhólum og nokkrar graskögglaverksmiðjur hér og þar um landið. En Steinullarverksmiðjan sómir sér vel í þessum fríða flokki.

Helzta afrek verksmiðjunnar er, að á þessu öðru starfsári hennar tekst henni að tapa um 50 milljónum af um 100 milljóna króna veltu. Hún tapar annarri hverri krónu, sem veltur um hendur hennar. Afar sjaldgæft er að frétta af svo sérstæðri afkomu fyrirtækis.

Í fyrra tapaði verksmiðjan 40 milljónum króna þann hluta úr árinu, sem hún var starfrækt. Þannig hefur hún alls tapað 90 milljónum eða rúmlega öllu hlutafénu, sem í hana hefur verið lagt. Hluthafarnir, með ríkið í broddi fylkingar, hafa tapað hverri krónu.

Fyrirsjáanlegt er, að á næsta ári verði enn tap á svipuðum nótum eða um 40 milljónir króna. Til að standa undir því hyggjast hluthafarnir leggja fram 70 milljónir króna í nýju hlutafé. Fremst fer þar í flokki ríkið sjálft, sem á 40% í gæludýrinu og þarf að borga 28 milljónir.

Í venjulegum rekstri teldu menn tímabært að leggja niður vopn og beina kröftum sínum að ánægjulegri verkefnum. En það má ekki í þessu tilviki, því að Steinullarverksmiðjan er eitt gæludýranna, sem talið er vera hornsteinn byggðastefnu og þjóðernis í þessu landi.

Í rauninni er Steinullarverksmiðjan byggðagildra, sem sogar til sín fjármagn bæjarsjóðs Sauðárkróks, ýmissa fyrirtækja og einstaklinga á staðnum og býr til tímabundna atvinnu, sem hefur truflandi áhrif á eðlilega framvindu. Allir málsaðilar tapa á henni.

Verksmiðjan var reist með því að brjóta fyrstu grein sérstakra laga um hana, þar sem ljóst stóð, að 40% aðild ríkissjóðs væri háð því, að heildarhlutaféð næði 30% af stofnkostnaði. Þetta skiptir þó litlu núna, þegar stofnkostnaður er að verða smáræði miðað við tapið.

Sem dæmi um blindnina, sem stjórnaði ferðinni, má nefna, að verksmiðjan kom með áætlaða 6000 tonna árlega afkastagetu inn á markað, sem hafði tekið við 600 tonnum á ári. Hún var reist til að anna hvorki meira né minna en tíföldum steinullarmarkaði í landinu.

Til að bæta stöðuna var ákveðið að ryðjast með steinullina inn á markað glerullar og plasteinangrunar. Þar með var ógnað atvinnu um 50 manna í 16 smáfyrirtækjum hér og þar á landinu. Þetta var gert með undirboðum. Verðið var lækkað niður fyrir glerullarverð.

Ráðamenn verksmiðjunnar kvarta um undirboð annarra. Samt er verð Steinullarverksmiðjunnar sjálfrar skólabókardæmi um undirboð, þar sem það hefur á þessu ári aðeins reynzt geta staðið undir helmingi kostnaðar. Undirboð verksmiðjunnar nemur því 50%.

Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið, að hún hafi nóga peninga til að ausa meira fé í botnlausa kelduna. Þess vegna verður verksmiðjan enn rekin um sinn. Eftir því sem leikurinn verður lengri, munu freistingar ráðamanna magnast. Þeir munu reyna aðrar aðferðir.

Næst fáum við að heyra, að banna þurfi innflutning á samkeppnisvörum verksmiðju, sem hefur hálfa veltuna í tapi. Húsbyggjendur verða látnir borga.

Jónas Kristjánsson

DV