Vill vera niðursetningur

Greinar

Á fyrri tímum þótti eins og nú sjálfsagt að hlúa eftir getu að þeim, sem minna máttu sín. Þá var margt slíkt fólk sett niður hjá öðrum, er betur máttu sín. Hinir fyrrnefndu voru svokallaðir niðursetningar, sem margir hverjir gátu lítið lagt til sameiginlegra heimilisþarfa.

Nú á tímum hefur heil stétt verið gerð að niðursetningi. Það eru bændur landsins. Hópur góðmenna í Reykjavík hefur skipulagt þessa fátæktarþjónustu. Hann er í ráðuneytinu, búnaðarfélaginu, stéttarsambandinu, framleiðsluráðinu, sísinu og sjóðunum.

Niðursetningurinn er að verða svo samgróinn hlutverkinu, að nánast daglega birtast í Tímanum greinar eftir sauðfjár- og kúabændur, þar sem hlutverkið er dásamað og hvatt til nánari útfærslu. Þeir eru svo sjálfsánægðir, að þeir láta birta bæði nafn og mynd.

Í stórum dráttum minnir iðja niðursetninganna á skipulag, sem sagan segir, að Þórður læknir hafi komið upp á Kleppi. Hann lét vitleysingja bera sand í fötum upp á aðra hæð og sturta síðan úr þeim niður á fyrstu. Þetta er góð lýsing á hefðbundnum landbúnaði okkar.

Bændur landsins eru styrktir með ráðum og dáðum til að framleiða í stórum stíl ýmsar vörur, sem fólk vill ekki kaupa upp, þótt niðurgreiddar séu. Niðursetningnum finnst sjálfsagt, að allar þessar vörur komist í verð, þótt viðskiptavinina skorti. Enginn annar hugsar svona.

Tíminn er prentaður í 10.000 eintökum, af því að það upplag hentar markaðnum. Engum þar dettur í hug að prenta 30.000 eintök og heimta, að þjóðin borgi allt. Engum þar dettur í hug, að þjóðinni verði bannað að kaupa önnur dagblöð og að minnsta kosti útlend blöð.

Hins vegar finnst niðursetningnum þetta sjálfsagt um sína framleiðslu. Honum finnst sjálfsagt, að hans kjöt sé stutt fram yfir samkeppniskjöt. Einnig, að þjóðin sé skylduð til að kaupa hans smjör á einkasöluverði, þótt það sé meira en tíu sinnum dýrara en erlent smjör.

Niðursetningurinn vill áfram fá að vera hrjáður og hæddur niðursetningur, þótt hrópað sé á starfskrafta úr öllum alvöru atvinnugreinum þjóðfélagsins, allt frá togaraútgerð yfir í tölvuútgerð. Hann segist meira að segja vera orðinn hluti af landslaginu.

Niðursetningurinn segir líka, að áfram verði að framleiða dýrasta smjör í heimi á kostnað lífskjara almennings, svo að þjóðin hafi mat í atómstríði. Hann telur ekki til matar ódýran og samkeppnishæfan freðfiskinn og saltfiskinn, sem fylla geymslur um allt land.

Og nú vilja fleiri verða niðursetningar en þeir, sem sýsla við sauðfé og kýr. Stefnt er að breytingu eggja-, kjúklinga- og svínabænda í niðursetninga, þótt alþýðan í verkalýðsfélögunum hafi í bili hindrað það, af því að hún er farin að skilja lífskjararán kerfisins.

Góðmennin í ráðuneytinu, búnaðarfélaginu, stéttarsambandinu, framleiðsluráðinu, sísinu og sjóðunum bíða nú átekta. Þeir hafa margsagt, að vísu með öðru orðalagi, að þeir hyggist gera þá bændur, sem enn eru sjálfstæðir Íslendingar, að niðursetningum.

Til þessa verks hafa þeir dyggan stuðning Alþýðubandalagsins, Framsóknarflokksins, Kvennalistans og Sjálfstæðisflokksins, sem þykist stundum vera á móti, en er alltaf með, þegar á reynir. Á móti standa bara nokkrir frjálshyggjugaurar í Alþýðuflokknum.

Þeir bændur, sem ekki vilja vera niðursetningar, ættu að beina geiri sínum að búvörumafíunni og stjórnmálaflokkum hennar, er hafa búið til ástandið.

Jónas Kristjánsson

DV