Kjósendur styrki flokkana

Greinar

Kunnur forstjóri hefur gortað af, að fyrirtæki hans styrki alla stjórnmálaflokkana. Hann sagðist ennfremur kjósa, að formenn flokkanna hringdu sjálfir í sig til að sníkja peninga. Sama fyrirtæki nýtur þess, að bannað er að flytja smjörlíki til landsins.

Vafalaust er ekkert samband milli fjárstuðnings fyrirtækisins við stjórnmálaflokkana og bannsins við innflutningi á smjörlíki. En dæmið sýnir þó, hversu háskalegt er, að stjórnmálaflokkarnir séu fjárhagslega háðir stórfyrirtækjum á borð við Smjörlíki hf.

Forstjórar stórfyrirtækja hafa mikið efnahagslegt vald. Þeir eiga ekki að fá að hrifsa til sín pólitískt vald, sem með réttu á að vera hjá kjósendum. Nauðsynlegt er að draga úr hættunni á, að stjórnmálaflokkar telji sig nauðbeygða til að stunda vændi af þessu tagi.

Lagt hefur verið til, að ríkið styrki stjórnmálaflokka í auknum mæli. Það gerir þegar nokkuð af því með styrkjum til starfsemi þingflokka og blaðastyrkjum. Með auknum framlögum væri auðvitað unnt að auka frelsi flokkanna gagnvart efnahagsöflum þjóðfélagsins.

Hins vegar mun Alþingi reynast erfitt að setja sanngjarnar reglur um dreifingu fjárins. Því hefur að vísu tekizt að dreifa núverandi styrkjum réttlátlega milli þingflokka. En hætt er við, að það taki minna tillit til flokka, sem ekki hafa enn komið manni á þing.

Betra er, að ríkið styrki stjórnmálaflokkana aðeins óbeint, það er með því að hvetja kjósendur til að styrkja þá. Það getur Alþingi með lögum um, að framlög kjósenda til stjórnmálaflokka og -manna verði að vissu marki frádráttarbær til skatts og útsvars.

Slíkan frádrátt má aðeins miða við framlög kjósenda, en ekki fyrirtækja, samtaka eða stofnana. Í aðferðinni felst, að kjósendur eru hvattir til að taka sjálfir fjárhagslegan þátt í stjórnmálunum og láta hann ekki að mestu eftir fyrirtækjum, samtökum og stofnunum.

Þessi frádráttur má aðeins gagnast kjósendum, ef stuðningur þeirra er veittur þeim stjórnmálaflokkum, sem veita opinberlega upplýsingar um veltu sína og um annan stuðning, sem ekki kemur fram í bókhaldi. Þetta gildi einnig um stuðning við einstaka frambjóðendur.

Brýnt er, að flokkar verði að upplýsa, hverjir kaupi happdrættismiða þeirra umfram ákveðið mark eða styrki þá á annan hátt umfram markið, til dæmis með láni á húsnæði eða síma, ­ í báðum tilvikum umfram það sem einstökum kjósendum verði skattfrjálst.

Eðlilegt er, að sett verði verðtryggð hámarksupphæð, sem frádráttarbær sé á hverju ári af stuðningi hvers kjósanda við stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn. Á núverandi verðlagi mætti upphæðin nema til dæmis 5.000 krónum á hvern kjósanda.

Taka þarf sérstakt tillit til, að núverandi reglur um fastan frádrátt einstaklinga valda því, að fæstir sjá sér hag í að nota breytilegan frádrátt. Tryggja þarf, að skattalög veiti kjósendum raunverulegan skattafrádrátt af stuðningi við stjórnmálalífið í landinu.

Markmið hugmyndarinnar er að hvetja kjósendur til fjárhagslegra fórna í þágu lýðræðisins og gera þeim kleift að komast að raun um, hvað hin fjárhagslega öflugu fyrirtæki, samtök og stofnanir gera í sama skyni.

Markmiðið er ekki að auka tekjur flokkanna, heldur færa uppsprettu peninganna frá hinum fáu og stóru, þar á meðal Smjörlíki hf., til hinna mörgu og smáu. Þetta er tilraun til að gera lýðræðið virkara.

Jónas Kristjánsson

DV