Árangur út í sand

Greinar

Verðbólgan er í þann mund að sækja í sig veðrið eftir tiltölulega rólegan hægagang á síðasta ári. Ríkisstjórnina hefur brostið getu og áræði til að halda áfram á fyrri aðhaldsbraut. Hún er í upphafi kosningavetrar farin að kynda undir verðbólgu á nýjan leik.

Fjármálaráðherra er einn um að telja verðbólgu ársins fara niður undir 5%. Hagfróðir menn telja þvert á móti, að verðbólgan fari að vaxa fyrir mitt ár og verði komin í uggvænlega háa tölu um næstu áramót. Sumir hafa nefnt 30% verðbólgu og aðrir 40% eða meiri.

Ríkisstjórnin á ekki ein alla sök á að missa verð bólguna úr böndum. Kjarasamningarnir í vetur, sem voru að ýmsu leyti jákvæðir, hafa í för með sér mikla hættu á launaskriði, eins og fyrri dæmi sanna. Hinir betur settu munu reyna að auka launamuninn að nýju.

Þeir hafa mikla möguleika að ná árangri. Það er samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar. Meiri eftirspurn er eftir fólki á hálaunastörf en láglaunastörf. Það misræmi stuðlar í launaskriði að auknum lífskjaramun, þótt reynt sé í kjarasamningum að minnka hann.

Þá hefur ríkisstjórninni reynzt erfitt að fá ýmsa opinbera og hálfopinbera aðila til að fylgja aðhaldi hennar í gjaldskrárhækkunum. Til dæmis hefur Landsvirkjun, í skjóli einokunar sinnar, hækkað raforkuverð töluvert umfram það, sem ríkisstjórnin hafði lagt til.

Alvarlegast á þessu sviði er þó, að sveitarfélögin hyggjast, undir forystu Reykjavíkurborgar, færa sér í nyt hægagang verðbólgunnar frá miðju síðasta árs til miðs þessa árs, alveg eins og þau gerðu milli áranna 1985 og 1986. Þau ætla að nota of háa skattprósentu.

Bent hefur verið á, að Reykjavík dugi 9% útsvar á þessu ári til að halda óbreyttu verðgildi tekna milli ára. Borgin var þegar í fyrra búin að hagnast á samdrætti verðbólgunnar á móti fyrra tapi vegna aukningar hennar. Hún þarf ekki að höggva í sama knérunn.

Að vísu mun Davíð borgarstjóra ekki gagnast að gerast skattakóngur annað árið í röð. Skattagræðgi hans og annarra hliðstæðra valdsmanna mun einmitt verða til uppfyllingar þeirri spá hans og afsökun, að verðbólguspátölur fjármálaráðherra séu allt of lágar.

Mest ábyrgðin á umskiptunum er fjármálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar. Það er þeirra vegna, að þjóðin situr uppi með nýsamþykkt fjárlög, sem gera ráð fyrir þriggja milljarða halla á svokölluðum A-hluta og fimm milljarða þensluhalla á ríkisbúskapnum í heild.

Þannig er þegar búið að gera ráð fyrir, að hallinn á ríkisbúskapnum nemi 4% af landsframleiðslu ársins. Þá er ekki búið að reikna með kostnaði við Útvegsbankann og margvíslegar freistingar aukafjárveitinga, sem sagan sýnir, að fylgja gjarna kosningaárum.

Þessi halli er margfalt of mikill. Hann veldur samkeppni við atvinnulífið um fjármagn og vinnuafl, einmitt á þenslutíma, þegar slík samkeppni á sízt við. Hallinn ryður öðrum aðilum til hliðar á lánamarkaði og magnar þannig háa vexti og erlendar lántökur.

Með skorti á aðhaldi í opinberum rekstri, aðallega ríkisins sjálfs, en einnig sveitarfélaga og hálfopinberra stofnana, er verið að auka spennuna í efnahagslífinu, magna hættuna á launaskriði og eyða árangrinum, sem náðist á fyrri árum stjórnarsamstarfsins.

Verðbólgan var með mikilli fyrirhöfn komin niður undir 10%. Sorglegt er að sjá þann árangur renna út í sandinn á síðasta starfsári ríkisstjórnarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV