Engin slökun eystra

Greinar

Þótt Sakharov hafi verið leyft að hverfa til Moskvu, sumpart til að létta stöðu Sovétríkjanna gagnvart Vesturlöndum, fer því fjarri, að komin sé hláka í mannréttindamálum þar eystra. Raunar er harka sovézkra stjórnvalda meiri en hún hefur verið um langt skeið.

Enn eru þúsundir manna af pólitískum ástæðum í útlegð og fangabúðum í Síberíu og á geðveikrahælum leyniþjónustunnar. Enn er það talið merki um geðveiki að fylgja mannréttindayfirlýsingunni frá Helsinki. Og meðferðin á fórnardýrum kerfisins hefur versnað.

Hinu er ekki að leyna, að þrýstingur að vestan hefur þvingað ráðamenn Sovétríkjanna upp í horn í mannréttindamálum. Einn fyrirrennara Gorbatsjovs, Brezhnev, skrifaði undir Helsinki-yfirlýsinguna og sveik jafnharðan, sem að sjálfsögðu gleymist aldrei.

Lengi framan af svöruðu austanmenn vestrænni gagnrýni með því, að hún væri íhlutun í sovézk innanríkismál. Fjallaði gagnrýnin þó aðeins um svik við alþjóðlegan samning um mannréttindi. Ekki er unnt að telja alþjóðasamninga vera sovézk innanríkismál.

Upp á síðkastið hafa Sovétfulltrúar svarað í sömu mynt með því að gagnrýna skort á svokölluðum efnahags-mannréttindum á Vesturlöndum, atvinnuleysi, húsnæðisskort og minnihlutamisrétti. Þar með viðurkenna þeir, að mannréttindi eru ekki innanríkismál.

Margir sakleysingjar ímynda sér, að Gorbatsjov muni auka mannréttindi í Sovétríkjunum. Engin merki eru um slíkt, ekki einu sinni heimkoma Sakharovs. Raunar væri það ekki í stíl valdshyggjumanns, sem meiri áhuga hefur á afköstum en hugsunum almennings.

Gorbatsjov hefur dregið úr möguleikum fólks að flytjast úr landi. Fyrir mörgum árum var nokkur straumur fólks úr landi, en nú hefur að mestu verið skrúfað fyrir hann. Stjórnvöld ofsækja þá, sem sækja um að komast á brott, til dæmis með því að reka þá úr vinnu.

Sakleysingjar hrósa Gorbatsjov fyrir að hvetja til gagnrýni í landinu. En í rauninni má sú gagnrýni eingöngu beinast að lágt og miðlungssettum embættismönnum á afmörkuðum sviðum. Engin raunveruleg pólitísk gagnrýni er leyfð í þessu risastóra fangelsi.

Sovétríkin standa langt að baki Kína í þessu efni. Mótmælagöngurnar í Kína sýna, að þar er leyfð pólitísk gagnrýni, svo framarlega sem hún dregur ekki í efa rétt kommúnistaflokksins til að stjórna landinu. Okkur þætti slíkt lítið, en er samt skárra en í Sovétríkjunum.

Ef Íslendingar byggju við kínverskt kerfi, mætti Svavar Gestsson kvarta, ef hann tæki skýrt fram, að hann efaðist ekki um rétt Sjálfstæðisflokksins til að stjórna ríkinu til eilífðar. Ef hér væri rússneskt kerfi, sæti Svavar á geðveikrahæli með öðrum stjórnarandstæðingum.

Þótt Gorbatsjov sé brosmildur, er hann samt foringi glæpaflokks, sem heldur íbúum ríkisins í járngreipum, stundar útrýmingarstríð í Afganistan og skipar Austur-Evrópubúum, hvar þeir skuli sitja og standa, auk þess sem hann stundar hryðjuverk á alþjóðlegum vettvangi.

Bros Gorbatsjovs stefnir að því að svæfa þjóðir Vesturlanda og framleiða þar nytsama sakleysingja, svo sem þá, er fagna innantómum yfirlýsingum á borð við kjarnorkuvopnalaus svæði, og fá ekki skilið, að það eru gerðir, en ekki yfirlýsingar, sem skipta máli.

Heimkoma Sakharovs er leikur í skák Gorbatsjovs og táknar síður en svo, að Sovétstjórnin sé minna hættuleg en áður eða meira gefin fyrir mannréttindi.

Jónas Kristjánsson

DV