Námsmenn ofsóttir

Greinar

Eitt sérkenna íslenzka menntakerfisins er, að háskólanemum eru ekki veittir styrkir, svo sem algengt er í öðrum löndum, heldur fá þeir nokkurn veginn sjálfvirk lán sér til framfærslu. Þetta er í eðli sínu gott kerfi, því að það er hlutlaust og skilar fé til baka.

Í styrkjakerfi, sem núverandi menntaráðherra vill koma á fót, er valið milli nemenda. Sumir fá, en aðrir ekki. Um það mun gilda eins og hefur gilt um embættaveitingar ráðherrans, að kerfið verður misnotað til að hygla óverðugum á kostnað verðugra.

Ofan á slíkar freistingar munu skömmtunarstjórar námsstyrkja þurfa að ákveða, hvaða háskólanám sé hagkvæmt og hvað ekki. Sagan sýnir, að spár um slíkt standast ekki. Hagnýtastar reynast oft þær fræðigreinar, sem skömmtunarstjórar vita varla, að séu til.

Skömmtunarstjórar þurfa ekki að vera neitt óvenjulega skammsýnir, þótt þeir eigi erfitt með að átta sig á, hvað verði hagkvæmast að fimm eða tíu árum liðnum, þegar nýta á þekkingu manns, sem verið er á líðandi stund að ákveða, hvort styrkja skuli eða ekki.

Sjálfvirk námslán til allra eru mun heppilegri leið, ekki sízt þegar þau skila sér eins vel til baka og raun ber vitni um hér á landi. Áætlað hefur verið, að 85% veittra lána skili sér í formi endurgreiðslu í Lánasjóð íslenzkra námsmanna. Það er frábær árangur.

Sjálfvirkni námslánanna veldur því, að ráðamenn þurfa hvorki að gerast skömmtunarstjórar yfir námsmönnum né að taka að sér að gera rangar framtíðarspár. Þar á ofan geta þeir glaðst yfir sparnaðinum, sem felst í að fá 85% lánsfjárins til baka í kassann.

Skynsamlegt er að líta svo á, að þau 15%, sem vantar á, að námslán séu endurgreidd, séu hliðstæður herkostnaður hins opinbera í menntamálum og önnur ríki hafa í námsstyrkjum sínum. Einnig ber að líta svo á, að vaxtaleysi lánanna feli í sér hliðstæðan styrk.

Ríkið fer alls ekki halloka í viðskiptum sínum við námsmenn. Í rauninni sleppur það ódýrt í samanburði við styrkjalöndin. Og þar að auki fær það aukagróða í viðskiptum sínum við þá námsmenn, sem kjósa að notfæra sér aðstöðu, sem borguð hefur verið í útlöndum.

Einkennandi fyrir núverandi menntaráðherra, og raunar kerfið í heild, er að amast við, að námsmenn spari ríkinu bygginga- og rekstrarkostnað með því að stunda nám í útlöndum. Nær væri að veita þeim viðbótarlán til að mæta viðbótarkostnaði þeirra.

Merkilegast er þó, að menntaráðherrann skuli, með stuðningi Sjálfstæðisflokksins, sífellt vera að reyna að koma höggi á námsmenn, en það hefur einmitt verið eitt helzta verkefni hans frá því að hann tók illu heilli við þessu ráðuneyti fyrir rúmlega ári.

Menntaráðherra hefur til dæmis hvað eftir annað reynt að setja lágt þak á námslánin, koma á þau vöxtum og kostnaði, stytta endurgreiðslutíma þeirra, hækka árlegt endurgreiðsluhámark og takmarka aðgang að þeim, svo og að breyta kerfinu að hluta í styrkjakerfi.

Svo er flumbrugangi ráðherrans sjálfs fyrir að þakka, að þetta hefur ekki tekizt enn. Viljinn virðist þó vera nægur, þrátt fyrir ýmsar hrakfarir hans. Verst er, að frammámenn í Sjálfstæðisflokknum skuli vera að mæla þröngsýnina og slagsmálagleðina upp í honum.

Þótt námslánakerfinu hafi reynzt þungt að mæta undanfarinni skriðu námsmanna, er það í aðalatriðum gott og heilbrigt. Það ber að verja af öllu afli.

Jónas Kristjánsson

DV