Áfengisóvinir í öngstræti

Greinar

Stundum er haldið fram, að minna framboð áfengis muni draga úr vandamálum, sem því fylgja. Er þetta meðal annars opinber skoðun eða trúarjátning Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Hún var nýlega ítrekuð í yfirlýsingu tólf forustulækna í heilbrigðiskerfinu.

Ný rannsókn á vegum félagsmálastofnunar sænska ríkisins bendir til, að þetta sé ekki einhlítt. Þar kom til dæmis fram, að andlát af völdum áfengistengdra sjúkdóma séu samanlagt ekki fleiri í hinni frjálslyndu Danmörku en í hinum stjórnlyndu Svíþjóð og Finnlandi.

Framboð áfengis er gífurlega misjafnt í þessum löndum. Aðeins 550 íbúar eru um hvert vínveitingahús í Danmörku, en 1.280 í Svíþjóð og 3.190 í Finnlandi. Aðeins 300 íbúar eru um hverja áfengisútsölu í Danmörku, en 23.000 í Finnlandi og 26.000 í Svíþjóð.

Ástandið hér á landi er svipað og í Finnlandi og Svíþjóð. 2.000 íbúar eru hér um hvert vínveitingahús og 20.000 um hverja áfengisútsölu. Íslenzk stjórnvöld reyna eftir megni að hamla gegn nýjum vínveitingaleyfum og neita óskum bæjarfélaga um áfengisútsölur.

Sænska rannsóknin sýnir, að niðurstaðan er eins, hvort sem framboð áfengis er mikið eða lítið. Munurinn er, að Danir deyja frekar úr skorpulifur, en Svíar úr áfengiseitrun. Af hverjum 100.000 íbúum deyja árlega 19 Danir og 21 Svíi úr áfengistengdum sjúkdómum.

Samkvæmt þessu er Alþjóða heilbrigðisstofnunin, íslenzka Áfengisvarnaráðið og læknarnir tólf á villigötum. Ef þessir aðilar eru andvígir áfengi, væri jafnvel nærtækara að berjast fyrir algeru áfengisbanni, svo að ekki deyi þessir 19 eða 21 af 100.000 íbúum.

Að vísu yrðu þessir aðilar þá að taka tillit til tæknikunnáttu fólks. Þeir gætu ekki komið í veg fyrir heimabrugg, þótt þeim tækist að loka áfengisútsölum og banna vínveitingar á veitingahúsum. Helzt yrðu þeir einnig að geta hindrað ferðalög til útlanda.

Um tólf ár eru síðan læknisfræðilegar rannsóknir sýndu fram á, að hófleg notkun áfengis dregur úr hjartasjúkdómum. Þetta hefur margoft síðan verið staðfest, svo sem fram hefur komið í brezka læknatímaritinu Lancet og blaði bandaríska læknafélagsins.

Menn deila um skýringuna, en helzt er talið, að vínandi efli svokölluð háþétt lipoprotein, sem eyða æðafitu. Almenning skiptir slíkt þó minna máli en hin vísindalega sannaða niðurstaða, að það er hinn illræmdi vínandi, sem hefur þessi hagstæðu áhrif á heilsuna.

Hin hóflega og hagkvæma notkun er sögð nema 70 sentílítrum af bjór eða 25 sentílítrum af víni eða 7 sentílítrum af sterku á dag. Hún er sögð breytast í óhóflega notkun, þegar hún fer yfir 140 sentílítra af bjór, 50 sentílítra af víni eða 15 sentílítra af sterku á dag.

Ein bezta röksemd áfengisandstæðinga er ölvunarakstur, sem veldur miklum hörmungum og tjóni. Síðustu fréttir herma, að fundnar hafi verið tæknilegar leiðir til að hindra akstur ölvaðs fólks. Innan nokkurra ára ætti að vera unnt að koma slíkum búnaði í alla bíla.

Hér hefur verið sagt, að aukið framboð áfengis magni ekki alvarlegasta áfengisvandamálið, dauðann. Ennfremur að koma megi í veg fyrir ölvunarakstur. Einnig, að algert bann sé tæplega framkvæmanlegt, auk þess sem það taki ekki tillit til hollustu áfengis.

Rétt væri af heilbrigðisyfirvöldum að forðast boð og bönn á þessu sviði, en einbeita sér fremur að því að benda á hin skörpu skil hóflegrar og óhóflegrar áfengisneyzlu.

Jónas Kristjánsson

DV