Of fáir eru reknir

Greinar

Allt of lítið er um, að opinberir embættismenn séu reknir úr starfi eða færðir til hliðar, svo að þeir valdi minna tjóni. Æviráðning og aðhaldsleysi embættis manna veldur mestu um, að rekstur hins opinbera stenzt engan samjöfnuð við annan rekstur í landinu.

Mikill sannleikur er í Pétursreglunni, sem segir, að menn hækki í starfi, unz þeir komist í embætti, er þeir ráða ekki við. Á því stigi framabrautarinnar staðnæmist fólk, óhæft um að gegna starfi sínu. Kerfi hins opinbera er stíflað af dæmum um þessa reglu.

Tjónið af þessu verður meira en ella fyrir þá sök, að íslenzkir embættismenn verða gjarna eins konar smákóngar með einræðisvaldi á afmörkuðu sviði. Það væri verðugt verkefni í stjórnsýslunni að brjóta þessa smákónga á bak aftur og innlima konungsríki þeirra.

Embættismenn valda tjóni á ýmsan hátt. Sumir reyna að hindra, að almenningur nái rétti sínum. Aðrir streitast við að synda gegn straumnum, sem þeim er ætlað að fylgja. Flestir nota meira fé skattgreiðenda, en þeim er heimilt. Þannig má rekja ýmis dæmi um vanhæfni.

Fræðslustjórinn á Norðurlandi eystra er sakaður um að fylgja eigin skólastefnu eða eins konar byggðastefnu, sem stangast að einhverju leyti á við línur fjárlaga og menntaráðuneytis. Það er alvarleg ásökun, því að embættismenn hafa ekki pólitískt hlutverk.

Ekki er hægt að láta viðgangast, að fræðslustjóri lifi sig svo inn í pólitískar hugsjónir byggðastefnu umdæmisins, að gerðir hans gangi sumpart í berhögg við ákvarðanir, sem yfirstofnun hans, menntaráðuneytið, tekur í samræmi við gildandi fjárlög á hverjum tíma.

Fræðslustjórinn hefur ennfremur verið sakaður um að fara 4% fram úr fjárlögum. Það er að sjálfsögðu 4% of mikið, því að gilda þarf hið sama um opinberan rekstur og annan rekstur, bæði fyrirtækja og fjölskyldna, að hann verður að standast áætlanir.

Raunar á ríkið að geta smíðað ramma um, hversu alvarleg sé talin hver prósenta umfram fjárlög. Lág umframtala gæti varðað skriflegri aðvörun, hærri tala flutningi embættismannsins í starf, sem síður varðar fjármál, og loks gæti enn hærri tala varðað brottrekstri.

Almennar og viðurkenndar viðmiðunarreglur af slíku tagi mundu auðvelda stjórnvöldum að losna við fjárfreka embættismenn án þess að þurfa síðan að borga þeim stórfé í skaðabætur. Þær mundu líka tryggja, að smákóngarnir gættu peninganna betur en ella.

Fræðslustjóranum er engin vörn í að vísa í grunnskólalög. Hefð er fyrir því hér á landi, að lög eru eins konar óskhyggja, sem nánar er útfærð í fjárlögum hverju sinni. Fjárlögin ganga oft mun skemur í fjárveitingum en gert er ráð fyrir í öðrum lögum. Og ráða.

Hins vegar er hætt við, að fleiri þurfi að fjúka en fræðslustjórinn einn, ef brottrekstrarramminn er miðaður við 4%. Í stórum dráttum má segja, að algert hrun yrði í stétt ráðuneytisstjóra, ef allir væru reknir, sem syndguðu upp á 4% af veltunni eða meira.

Ennfremur væri nauðsynlegt að byrja á að reka ráðuneytisstjórann og ráðherrann í menntaráðuneytinu á undan fræðslustjóranum. Þeir fóru nefnilega fjórum sinnum lengra fram úr fjárlögum en hann, það er að segja rúmlega 17% á sama tíma og hann fór 4% framúr.

Gild rök eru sennilega fyrir nýjasta brottrekstrinum. En sé svo, mættu gjarna aðrir fjúka fyrst. Fremstir eru þar í flokki ráðherra og ráðuneytisstjóri menntamála.

Jónas Kristjánsson

DV