Merkasta málið, sem Alþingi fjallar um þessa dagana, er frumvarp til laga um heimild til að leyfa fiskmarkaði á Íslandi, eins og tíðkast í nærri öllum löndum, sem kaupa af okkur sjávarafurðir. Frumvarpið hefur hlotið góðar viðtökur og verður líklega samþykkt.
Til skamms tíma hafa Íslendingar sætt sig við þá sérstæðu aðferð, að verð á fiski sé ákveðið af embættismanni í yfirnefnd opinbers verðlagsráðs, sem tekur fremur lítið tillit til misjafnra gæða og annarra markaðsaðstæðna. Þetta breyttist snögglega á síðasta ári.
Eftir nokkrar umræður um málið var í fyrrahaust gerð tilraun með frjálst verð á loðnu. Eftir nokkra byrjunarerfiðleika gekk dæmið upp og málsaðilar urðu að lokum tiltölulega sáttir. Þá vöknuðu vonir um, að unnt yrði að koma á almennu frelsi um síðustu áramót.
Ýmsar efasemdir, er einkum heyrðust frá litlum sjávarplássum, þar sem menn óttuðust að verða undir í samkeppninni, ollu drætti við gerð fiskmarkaðsfrumvarpsins í sjávarútvegsráðuneytinu. Það hefur nú fyrst komið fram og nýtist ekki á nýhafinni vetrarvertíð.
Um tíma voru horfur á, að Verðlagsráð sjálft mundi gefa fiskverð frjálst um áramótin, svo að unnt yrði að fá reynslu af fyrstu fiskmörkuðum landsins þegar á þessari vertíð. Fulltrúar í ráðinu voru jákvæðir í tali, en heyktust, þegar á hólminn kom.
Mestur áhugi á málinu hefur verið við Faxaflóann. Þar koma á land tæplega 200 þúsund tonn af fiski á ári hverju eða hæfilegt magn fyrir þrjá fiskmarkaði af hentugustu stærð. Hafnfirðingar voru fyrstir af stað og Reykvíkingar fylgdu fast á eftir.
Hugmyndir beggja aðila eru svipaðar. Hafnfirðingar eru að reisa 4.000 fermetra hús við Óseyrarbryggju og Reykvíkingar ætla að nota 3.500 fermetra í Faxaskála. Fjármagn til framkvæmda virðist tryggt og annar undirbúningur hefur verið í góðu og traustu lagi.
Lítill vafi er á, að þessir markaðir, svo og aðrir, sem kunna að verða stofnaðir á öðrum útgerðarsvæðum, svo sem í Vestmannaeyjum og Eyjafirði, munu draga til sín viðskipti og efla viðkomandi bæi á kostnað hinna, sem ekki þora eða ekki geta fetað í fótsporin.
Markaðirnir munu örugglega hækka fiskverð. Vinnslustöðvar munu hætta að kaupa afla holt og bolt og fara að velja fisk í ákveðnar vinnslulínur. Það gerir rekstur þeirra hagkvæmari og auðveldar þeim að greiða hærra fiskverð, er síðan mun almennt gefa tóninn.
Um leið batnar aðstaða vinnslustöðvanna til að keppa í verði við erlendar stöðvar, sem kaupa íslenzkan fisk á erlendum fiskmarkaði. Gámafiskur og annar útfluttur ferskfiskur verður þá ekki til að rústa íslenzkan fiskiðnað, eins og horfur voru á um tíma.
Fiskmarkaðirnir fela í sér afnám miðstýringar og upptöku markaðslögmála framboðs, eftirspurnar og gæða, sem mun efla íslenzkan sjávarútveg. Fiskmarkaðirnir munu auka tekjur sjómanna og útvegsmanna og hindra um leið, að fiskvinnslan færist til útlanda.
Einnig er mikilvægt, að fiskmarkaðir koma öllum málsaðilum í beinna jarðsamband og stuðla að vandaðri vinnubrögðum, sem gefa hátt verð fyrir gæðafisk. Þeir munu á þann hátt auka verðmæti íslenzka sjávaraflans í heild og þar með þjóðartekjurnar.
Samþykkt frumvarpsins um heimild til innlendra fiskmarkaða verður eitt af allra mestu framfarasporum þjóðarinnar á níunda áratug tuttugustu aldar.
Jónas Kristjánsson
DV