Ríkisstjórnin hefur að mestu hætt við fyrri áform um að nota tækifæri staðgreiðslu skatta til að hækka álögur á fólki. Staðgreiðslufrumvarpið, sem nú er til umræðu á Alþingi, er komið í nokkurn veginn samþykkjanlegt horf. Það verður því vonandi að lögum á þessu þingi.
Þegar málið var til umræðu fyrir og eftir áramótin, var reiknað með 3540% skatti. Eftir gagnrýni hér í blaðinu og víðar var frumvarpið síðan lagt fram með álagningu við lægri mörk þessa sviðs, það er að segja á bilinu 34,7535,5%, sem gróft reiknað er 35%.
Haldið hefur verið fram með rökum, að hinu opinbera nægi 31% álagning til að ná sömu tekjum eftir staðgreiðslukerfi og það hefði annars fengið eftir núgildandi kerfi. En með tilliti til breyttrar verðbólgu og ýmissa hliðaraðgerða má telja 35% vera verjandi.
Launafólk öðlast við breytinguna aukið skattaöryggi. Það þarf ekki að borga skatt af ákveðnum lágmarkstekjum og veit sig munu borga flatan skatt, þriðjung af öllum tekjum umfram þær. Þessi þriðjungur kemur í stað núverandi tekjuskatta og útsvars.
Þriðjungur tekna greiðist í skatt, hvort sem þær eru litlar eða miklar, vaxandi eða minnkandi, ef þær eru á annað borð umfram lágmarkið. Þriðjungurinn greiðist jafnóðum af viðbótartekjum, svo að fólk getur alltaf séð, hvað það hefur í rauninni til eigin ráðstöfunar.
Miklu máli skiptir, að fólk sér aldrei þennan þriðjung tekna sinna. Það lendir því ekki í blekkingu núverandi kerfis, þar sem viðbótartekjur eru fyrst borgaðar fólki og síðan teknar af því aftur. Fólk veit, hvað það hefur raunverulega handa milli og hvað er tímabundið lán.
Við núverandi aðstæður sækir fólk oft fram í launum, þegar vel árar. Þá fær það mikið fé í hendurnar. Þetta fé notar það eins og sitt eigið. Síðan neyðist það til að endurgreiða féð til skattsins ári síðar, þegar hin ytri fjárhagsskilyrði kunna að vera mun lakari.
Margir hafa lent í ótrúlegustu vandræðum vegna þessa. Þeir hafa eytt eða fjárfest í góðæri og síðan fengið skattinn í hausinn ári síðar, þegar verr áraði. Þeir hafa síðan setið uppi með nánast óleysanlegan skuldahala. Staðgreiðslan á að að geta hindrað slíkan vanda.
Einkum kemur staðgreiðslan sér vel, þegar fólk vill minnka við sig tekjur eða verður að minnka þær við sig af einhverjum ástæðum, til dæmis vegna aldurs, veikinda eða endurmenntunar. Það hefur ekki yfir sér martröð hárra skatta á tekjulitlu eða tekjulausu ári.
Á móti kemur aukin byrði á herðar þeirra, sem eru að ljúka námi og fara út í atvinnulífið. Hingað til hafa þeir í reynd haft fyrsta árið skattlaust og notað það til að koma undir sig fótunum, til dæmis með því að fjárfesta í húsnæði. Nú verður það stórum erfiðara.
Á sama tíma er áhugi innan ríkisstjórnarinnar á að skerða kjör þeirra, sem eru að ljúka námi, með því að hækka árlegar endurgreiðslur námslána og leggja á þau bæði vexti og kostnað. Þannig ræðst ríkisstjórnin að námsmönnum með tangarsókn lána- og skattakerfis.
Þessa tangarsókn þarf Alþingi að stöðva um leið og það gerir staðgreiðslu skatta að lögum. Við meðferð málsins hlýtur að vera unnt að taka sérstakt tillit til erfiðleika námsmanna, sem koma stórskuldugir út í lífið. Annars munu hinir beztu þeirra hreinlega flýja land.
Að lokum er athyglisvert að minnast þess, að ódýrir stjórnmálamenn, sem sífellt lofa afnámi tekjuskatts, eru að festa hann í sessi með staðgreiðslufrumvarpinu.
Jónas Kristjánsson
DV