Keypt og seld góðverk

Greinar

Ekki koma á óvart fréttir um, að lánsloforð Húsnæðisstofnunar gangi kaupum og sölum á 100.000 krónur. Við lifum enn í skömmtunarkerfi kreppuáranna. Úthlutanir hafa alltaf gengið kaupum og sölum, enda hefur skömmtunarstjórum alltaf liðið vel.

Til skamms tíma gengu úthlutanir lóða kaupum og sölum í Reykjavík. Það stafaði auðvitað af því, að eftirspurn var meiri en framboð, alveg eins og í húsnæðislánunum. Í öllum slíkum tilvikum úthluta stjórnmálamenn og embættismenn vörunni til hinna réttlátu.

Í gamla daga fengu stjórnarmenn Húsnæðisstofnunar flokkakvóta, svo að allir, sem vildu lán, urðu að hórast með einhverjum stjórnmálaflokknum. Þá var einnig augljóst, að hollusta við Sjálfstæðisflokkinn var líkleg til að veita aðgang að góðri lóð í borginni.

Á báðum þessum sviðum hefur skömmtunarkerfið linazt, en ekki lagzt niður. Meðan úthlutun eða skömmtun eftirsóttrar vöru gengur kaupum og sölum, er ekki unnt að segja, að við höfum fyllilega losnað við höftin, sem við vöndum okkur við á kreppuárunum.

Til skamms tíma hefur skömmtunarkerfi verið haldið uppi í bankakerfinu með því að hafa vexti lága og helzt neikvæða. Að fá lán jafngilti þá happdrættisvinningi, enda var slíkum vinningum gjarna úthlutað, oft á flokkspólitískum eða öðrum pólitískum forsendum.

Með hækkun raunvaxta hafa lán orðið lakari happdrættisvinningar. Skömmtunarkerfið hefur því linazt í bankakerfinu eins og í mörgum öðrum kerfum hins opinbera. En leifar þess verða þó áfram í bankakerfinu, meðan eftirspurn lána er meiri en framboð þeirra.

Margvísleg skömmtun, sem áður þótti sjálfsögð, hefur nú verið lögð niður. Einu sinni var hægt að fá erlendan gjaldeyri á tvenns konar verði. Einu sinni voru bílar skammtaðir og þá var auðvitað kátt í höllum skömmtunarstjóra. Enn hafa þeir þó mörg gleðiefnin.

Af einhverjum ástæðum hefur hið opinbera ákveðið að styðja íslenzka kvikmyndagerð. Engum datt í hug að gera það með því að greiða niður verð aðgöngumiða, svo að mestan stuðning fengju þeir kvikmyndagerðarmenn, sem næðu eyrum og augum fólks.

Í þess stað var myndaður einn af þúsund sjóðum landsins. Þar sitja þrír kerfisprinsar í einni af þúsund sjóðsstjórnum landsins. Þeir úthluta eða skammta fé til hinna réttlátu. Auðvitað vita þeir minna en markaðurinn um, hverjir eru réttlátir og hverjir ekki.

Að undanförnu hefur staðið í fjölmiðlum feiknarmikið rifrildi um síðustu úthlutun skömmtunarstjóranna í Kvikmyndasjóði. Enginn botn fæst í rifrildið, fyrr en kerfisprinsunum verður gefið frí og markaðnum leyft að ráða, hverjir fá að kvikmynda meira en aðrir.

Heilt ráðuneyti og fullt af stofnunum úti í bæ hefur tæpast gert annað í nokkur ár en að úthluta búmarki og fullvirðisrétti út og suður í hinum hefðbundna landbúnaði, svona til að staðfesta, að sú þjóðaríþrótt er endanlega orðin að æviráðnum niðursetningi.

Meira að segja sjávarútvegurinn hefur verið reyrður í kvóta, sem hafa ýmsar jákvæðar hliðar, en hindra þó eðlilega endurnýjun skipaflotans og halda uppi fáránlega háu verði á manndrápsfleytum, sem eiga kvóta.

Vandann, sem skömmtun er ætlað að leysa, má yfirleitt leysa á skynsamlegri hátt. Helzta fyrirstaðan er, að þá mundu skömmtunarstjórar missa af ánægjunni af að vinna góðverk, sem geta gengið kaupum og sölum.

Jónas Kristjánsson

DV