Verkin tala en ekki orðin

Greinar

Gorbatsjov Sovétleiðtogi þarf að fá sæmilega einkunn í sex prófum, áður en Vesturlandabúum er óhætt að reikna með, að raunveruleg breyting sé að verða á stefnu Sovétríkjanna í mannréttindum, lýðræði, vígbúnaði og samskiptum við önnur ríki.

Þótt 140 andófsmenn hafi verið látnir lausir á nokkrum vikum, eru enn margfalt fleiri í haldi í fangabúðum og á svokölluðum geðveikrahælum. Ekkert bendir til, að meðferð þúsundanna, sem eftir sitja, hafi skánað. Hún hefur raunar versnað á valdatíma Gorbatsjovs.

Líta má á frelsun 140 manna sem tímabundna andlitslyftingu til að undirbúa nýliðna friðarráðstefnu í Moskvu og minnka árvekni Vesturlandabúa, ef straumurinn heldur ekki áfram. Það er ekki nóg að sleppa bara þekktum mönnum á borð við Sakharov og Begun.

Annað próf, sem Gorbatsjov þarf að þreyta, er að leyfa fólki, sem vill flytja til annarra landa, að gera það í jafnstríðum straumum og áður. Á undanförnum árum hefur að mestu verið skrúfað fyrir hinn fyrri flaum, þannig að ástandið hefur einnig versnað á þessu sviði.

Ekki er ástæða til að skoða fækkun á hömlum í hagkerfinu sem merki um, að fetað verði í átt til lýðræðis í Sovétríkjunum. Aðgerðir Gorbatsjovs hafa til þessa eingöngu stefnt að hagvexti. Ekkert sýnir, að ætlazt sé til, að frelsi á öðrum sviðum fylgi í kjölfarið.

Auðvitað er líklegt, að aukið efnahagslegt frelsi kalli á meira tæknilegt frelsi, vísindalegt, menningarlegt og loks stjórnmálalegt. Stefna Gorbatsjovs kann að leiða til slíks og má sennilega þegar sjá þess merki í menningunni. En meira þarf hann til að standast þriðja prófið.

Svartasti bletturinn á Sovétríkjunum í utanríkismálum er villimannlegur hernaður þeirra í Afganistan. Ekki dugir, að sendimenn Gorbatsjovs láti í veðri vaka, að Sovétstjórnin sé til viðræðu um að kalla herinn heim, meðan verkin tala frá degi til dags í formi þjóðarmorðs.

Fjórða próf Gorbatsjovs felst í að flytja glæpaherinn heim á sex mánuðum og leyfa myndun þjóðstjórnar í Afganistan án þátttöku núverandi kvislinga í Kabúl, ­ gegn því, að þjóðstjórnin og stórveldin ábyrgist vinsamlegt hlutleysi Afganistan gagnvart Sovétríkjunum.

Bezt hefur Gorbatsjov tekizt að sýna vilja til stöðvunar viðbúnaðarkapphlaupsins og samdráttar í vígbúnaði. Áróðurssókn hans á því sviði hefur notið þess, að þriðjudeildarlið er við völd í Hvíta húsinu í Washington. En meira þarf, ef duga skal til prófs.

Friður byggist ekki á fögrum yfirlýsingum um kjarnorkuvopnalaus svæði eða annað rugl. Hann byggist á samkomulagi um áþreifanlegar tölur um samdrátt í vígbúnaði, en einkum þó og aðallega á ströngu eftirliti með, að samkomulagið sé virt í hvívetna.

Þess hafa sézt merki á fjölþjóðlegum slökunarfundum, að sendimenn Sovétríkjanna séu að byrja að gefa eftir á þessu sviði. Þeir tala ekki lengur um eftirlit sem dulbúnar njósnir óvinarins. Hins vegar er ekki enn tímabært að meta, hvort þetta sé meira en orðin tóm.

Sjötta og síðasta próf Gorbatsjovs getur reynzt það þyngsta. Ef hann vill í rauninni ná hinum prófunum fimm, þarf hann að vinna sigur á þeim flokksöflum, sem eru andvíg breytingum, er óhjákvæmilega fylgja í kjölfar aukins lýðræðis inn á við og aukins friðar út á við.

Sjötta prófið er einfaldlega spurningin um, hvort Gorbatsjov ekki bara vill, heldur getur líka staðið við að láta ekki bara orðin, heldur líka verkin tala.

Jónas Kristjánsson

DV