Fjörður

Frá Grýtubakka í Höfðahverfi um Hvammsheiði að Þönglabakka í Fjörðum.

Þetta land er allt í eyði, enda orti Látra-Björg svo: “Fagurt er í Fjörðum / þá frelsarinn gefur veðrið blítt / heyið grænt í görðum / grös og heilagfiski nýtt / En þá vetur að oss fer að sveigja, / enga veit ég verri sveit / um veraldarreit, / menn og dýr þá deyja.” Þönglabakki er gamall kirkjustaður, þar sem nú er björgunarskýli.

Förum frá Grýtubakka eftir jeppaslóð norðvestur á Hvammsheiði og síðan norður heiðina, hæst í 300 metra hæð. Austan Sveigsfjalls og vestan Skessuhryggs, Blámannshatts, Grjótskálarhnjúks og Leirdalsaxlar. Um eyðibýlið Grundarsel og um Nautagrænur og niður heiðina um Hávörður og Sporð. Þar er fjallakofinn Gil. Áfram norður með Austurá austan við Darra og vestan við Hnausafjall að Tindriðastöðum í Fjörðum. Þaðan með austurhlíð dalsins niður að sjó í Hvalvatnsfirði. Vestur yfir Austurá og síðan milli Þorgeirshöfða að norðan og Lúts að sunnan yfir að Þönglabakka í Þorgeirsfirði.

26,8 km
Þingeyjarsýslur

Skálar:
Gil: N66 04.386 W18 04.602.
Þönglabakki: N66 09.120 W18 07.399.

Jeppafært

Nálægir ferlar: Skuggabjörg.
Nálægar leiðir: Blæja.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Útivistarkort