Vaxandi vandi

Greinar

Rangt er, að hert stjórn á hinum hefðbundna landbúnaði Íslendinga sé byrjuð að draga úr stórvandræðunum, sem hann veldur þjóðinni. Þvert á móti hefur hin aukna stjórn fullgert sjálfvirkan vítahring, sem leggur frá ári til árs þyngri byrðar á herðar almennings.

Vítahringurinn felst í, að annars vegar ábyrgist ríkið tekjur bænda og hins vegar sölu á umsömdu magni afurða þeirra. Ef eitthvað fer úr böndum, sem alltaf gerist, verður ríkið að koma til skjalanna í umboði skattgreiðenda, neytenda og launþega, allra þolenda kerfisins.

Þessa dagana erum við að sjá, að auknar verða niðurgreiðslur á afurðum hins hefðbundna landbúnaðar, svo að hækkun á launum bænda leiði ekki til minni sölu afurðanna. Ef ríkið leyfði sölunni að minnka, yrði það að grípa til enn dýrari ráða í útflutningsuppbótum.

Ekki er í fjárlögum ríkisins gert ráð fyrir þessum auknu niðurgreiðslum. Raunar var fyrir á fjárlögunum halli, sem fjármagna átti með lántökum innanlands. Þær lántökur eru byrjaðar að þrýsta vöxtum upp á við og þrýsta öðrum lántakendum á erlendan lánamarkað.

Hinar auknu niðurgreiðslur munu bætast ofan á þennan vanda. Þær munu auka lánsfjárþörf ríkisins og þar með hækka vexti og óbeint auka lántökur í útlöndum. Þær munu auka hallann á þjóðarbúskapnum, leiða til seðlaprentunar og auka hraða verðbólgunnar.

Rauðu strikin verða rofin von bráðar. Þau voru þegar komin í hættu, af því að verðbólgan var farin að aukast aftur. Í kjölfarið verður að hækka launin í landinu. Þær tölur mun svokölluð sex manna nefnd nota til að reikna út enn eina hækkun á launum bænda.

Í millitíðinni mun hinn sameiginlegi sjóður landsmanna punga út ýmsum fjárupphæðum utan fjárlaga, til dæmis til að borga fyrir ullargjafir til útlanda, af því að ullin er ekki lengur söluhæf vara. Er þá raunar horfin síðasta vörn sauðfjárræktar í landinu.

Á sama tíma er forsætisráðherra í Moskvu að reka áróður fyrir, að Sovétmenn taki við meiri gjöfum ullarvöru og nýjum gjöfum kindakjöts, svo að íslenzkir skattgreiðendur megi njóta þess að fá að borga skæði og fæði þeirra eins og Egypta. Þetta krefst aukins fjár.

Frá ómunatíð hefur hinn hefðbundni landbúnaður átt aðgang að björgunaraðgerðum utan fjárlaga. Breytingin er hins vegar sú, að björgunaraðgerðunum fer ört fjölgandi og upphæðirnar verða stórfenglegri. Vítahringurinn er smám saman að komast á aukna ferð.

Fjárlög eru marklaus. Kjarasamningar eru marklausir. Baráttan við rauðu strikin og verðbólguna er marklaus. Baráttan gegn hallabúskap er marklaus. Baráttan gegn skuldasöfnun í útlöndum er marklaus. Vítahringur hins hefðbundna landbúnaðar sér um það.

Þrýstistjórar greinarinnar eru ekki á undanhaldi. Þeir eru þvert á móti í sókn. Búnaðarmálastjóri hvatti nýlega til, að hinn hefðbundni landbúnaður yrði verndaður gegn samkeppni “bæði með tollum og ýmiss konar innflutningshömlum og stórfelldum stuðningi”.

Þessa dagana er Búnaðarþing að krefjast aukins aðlögunartíma, þótt aldarfjórðungur sé liðinn, síðan markvisst var farið að benda á eitrun hins hefðbundna landbúnaðar. Formaður Stéttarsambands bænda er sigurviss og segir: “Bændur munu fá kjör sín lagfærð”.

Betra er, að ríkið hætti kvótum, niðurgreiðslum, útflutningsuppbótum, innflutningsbanni og öðrum afskiptum af þessari sífellt dýrari peningabrennslu.

Jónas Kristjánsson

DV