Tökum erlenda þræla

Greinar

Of lengi hafa Íslendingar haft hinn hefðbundna landbúnað að þræl, sem stritar fyrir litla umbun. Svo lengi hefur þrællinn vanizt hlutskipti sínu, að hann er farinn að líta á sig sem ríkiseign ­ lögskipaðan niðursetning þjóðfélagsins. Hann er sívælandi og síheimtandi.

Nágrannar okkar í Vestur-Evrópu hafa í nokkra áratugi flutt inn erlenda þræla til að strita fyrir litla umbun. Um leið hafa þeir flutt inn vandamál farandverkamanna, sem reynzt hefur erfitt að ráða við. Til er betri leið ­ að láta þrælana sitja heima hjá sér.

Við hagnýtum okkur þetta raunar á flestum sviðum landbúnaðar. Við neitum okkur ekki um að njóta innflutnings ódýrrar búvöru, sem við kaupum á heimsmarkaðsverði. Það er verð hagkvæmasta framleiðandans, stutt niðurgreiðslum hinna, sem óhagkvæmari eru.

Við neitum okkur samt um þessi þægindi á sviðum, þar sem hinum innlenda þræl tekst með herkjum að framleiða vöru. Við látum hann til dæmis stritast við að búa til smjör, þótt það sé tíu til tuttugu sinnum dýrara en það, sem við getum keypt frá útlöndum.

Í sumum löndum sérstakra skilyrða eru ákveðnar afurðir framleiddar á afar ódýran og hagkvæman hátt. Þar er þessi vara hliðstæð undirstaða og sjávarvaran er hér á landi. Verðlag hennar ræður síðan heimsmarkaðsverði og neyðir aðra til að selja á svipuðu verði.

Þannig hafa Nýja-Sjáland, Ástralía og Argentína náð sérstöðu á vissum sviðum, einkum í kjötframleiðslu. Þannig ráða Bandaríkin ferðinni og verðinu á ótal sviðum landbúnaðar, af því að framleiðni þeirra er tvöfalt meiri en til dæmis framleiðni Evrópubandalagsins.

Við getum fengið allar tegundir kjöts frá útlöndum á mun lægra verði en kostar að framleiða þær hér. Við getum fengið flestar mjólkurvörur frá útlöndum á mun lægra verði en kostar að framleiða þær hér. Þess vegna eigum við leggja niður innlenda þrælahaldið.

Ef við gæfum okkur innflutningsfrelsi á þessum sviðum, mundu allar hinar mikilvægu neyzluvörur lækka í verði yfir búðarborðið. Það yrði gífurleg kjarabót, einkum fyrir barnmargar fjölskyldur. Engir kjarasamningar sögunnar kæmust í hálfkvisti við þetta happ.

Lækkun verðsins mundi stuðla að verðhjöðnun, til mótvægis öðrum áhrifaþáttum, sem stuðla að verðbólgu. Þannig yrði fimm ára áætlun um innflutningsfrelsi að mikilvægu stjórntæki, sem afnæmi verðbólgu og gerði stöðugt verðlag í landinu að hefð og vana.

Innflutningsfrelsið mundi ennfremur smám saman leiða til, að ríkið sparaði sér og skattgreiðendum hinn gífurlega kostnað, sem nú fylgir því að halda uppi þrælahaldi innanlands í hefðbundnum landbúnaði. Sá kostnaður fer hríðvaxandi með hverju árinu, sem líður.

Margoft hefur verið rakið í smáatriðum, hvers vegna okkur er þetta óhætt ­ að við mundum samt búa við eðlilegt matvælaöryggi og fulla atvinnu í landinu. Þrælahald niðursetningsins eykur ekki matvælaöryggið og dregur að auki úr sókn Íslendinga í arðbær störf.

Við skulum því létta stritinu af þrælnum og flytja það til útlendinga, Bandaríkjamanna og annarra, sem geta búið til ódýran mat. Við skulum veita þrælnum frelsi og kenna honum að vinna arðbær störf, sem skapa gjaldeyri eða spara gjaldeyri. Af nógu er að taka.

Innflutningsfrelsi búvöru og afnám fjárhagslegra afskipta ríkisins af innlendu þrælahaldi í landbúnaði eru hornsteinn bættra lífskjara neytenda og skattgreiðenda.

Jónas Kristjánsson

DV