Forustumenn heimsveldanna tveggja hafa nú, að frumkvæði Gorbatsjovs, tekið að nýju upp þráðinn, sem þeir spunnu í Reykjavík í október á síðasta ári. Fulltrúar beggja aðila eru að ganga til samningaviðræðna um útrýmingu meðaldrægra kjarnorkueldflauga í Evrópu.
Þetta er raunar atriði, sem Gorbatsjov og Reagan voru orðnir ásáttir um í Reykjavík, þegar toppfundur þeirra sprakk á orðalagi í allt öðru máli, geimvarnaáætlun Bandaríkjaforseta. Gorbatsjov heimtaði þá, að slík vopn yrðu ekki reynd utan rannsóknarstofa.
Nú hefur hann fallizt á, að tengja ekki þessi tvö mál saman, svo að semja megi um meðaldrægu kjarnaflaugarnar án tillits til, hvernig heimsveldunum gengur að semja á öðrum sviðum samdráttar í vígbúnaði. Það er tímamótaskref í átt til árangurs á öllum sviðunum.
Fulltrúar Sovétríkjanna hafa raunar gengið lengra, síðan Gorbatsjov sló fram þessu trompi. Þeir segja, að Sovétríkin muni geta fallizt á gagnkvæmt eftirlit með efndum á samkomulagi um meðaldrægu flaugarnar og á samkomulag um fækkun skammdrægra kjarnaflauga.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa tekið þessu skynsamlega. Þau hafa látið í ljósi ánægju með hugmyndir Gorbatsjovs og ákveðið, að láta fulltrúa sína hefja viðræður við fulltrúa Sovétríkjanna. Um leið hafa þau bent á, að málið væri þar með ekki alveg leyst.
Þegar sovézk stjórnvöld spila einhverju út á alþjóðlegum vettvangi, er nærtækast að reikna með, að það sé liður í áróðursstríði, fremur en dæmi um raunverulegan sáttavilja. Hingað til hafa þau litið á gagnkvæmt eftirlit sem eins konar ávísun á vestrænar njósnir.
Markmið Sovétstjórnarinnar koma fyrst í ljós, þegar farið verður að ræða um gagnkvæma eftirlitið. Ef áhugi þeirra verður minni á borði en hann hann er nú í orði, er unnt að flokka frumkvæði Gorbatsjovs fremur sem áróðursbragð en skref til minnkaðrar ófriðarhættu.
Markmiðin koma einnig í ljós, þegar rætt verður nánar um þá fækkun skammdrægra kjarnaflauga, sem þarf að fylgja fækkun meðaldrægu kjarnaflauganna til þess að ná fram betra jafnvægi í viðbúnaði austurs og vesturs í Evrópu. Annars mundi halla á vestrið.
Óhætt er að slá föstu, að samkomulag um meðaldrægar kjarnaflaugar er ekki pappírsins virði, nema það feli í sér nákvæm ákvæði um virkt eftirlit. Slíkt hið sama gildir raunar um samkomulag á öðrum sviðum, svo sem um skammdrægar og langdrægar kjarnaflaugar.
Ennfremur gildir það um hvert það samkomulag, sem heimsveldin kunna að gera með sér um takmörkun kjarnorkutilrauna, samdrátt í efnavopnum og hefðbundnum vopnum og tilkynningaskyldu í heræfingum og herflutningum. Eftirlitið er ætíð hornsteinninn.
Samkomulag um meðaldrægar kjarnaflaugar verður einnig að taka tillit til yfirburða Sovétríkjanna í skammdrægum kjarnaflaugum og hefðbundnum vopnum í Evrópu. Það má alls ekki verða til að freista Sovétstjórnarinnar til ævintýra á þeim sviðum.
Afnám meðaldrægra og fækkun skammdrægra kjarnaflauga í Evrópu hefur það sérstaka gildi, að það eykur á ný umþóttunartímann, sem báðir aðilar hafa, ef slys eða misskilningur fer að valda kláða í gikkfingri. Þessi vopn höfðu gert viðvörunartímann of stuttan.
Þráðurinn frá toppfundinum í Reykjavík hefur verið tekinn upp. Vonandi tekst ráðamönnum heimsveldanna að spinna úr honum traustari frið en við búum nú við.
Jónas Kristjánsson
DV