Þversum með sæmd

Greinar

Ánægjulegt er, að Íslandi hefur tekizt að losna undan norrænum grillum einhliða yfirlýsinga um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Þær grillur hafa stuðlað að trú Sovétstjórnarinnar á, að hún fái vestrænar eftirgjafir ókeypis, án þess að gefa eftir á móti.

Matthías Á. Mathiesen utanríkisráðherra hefur verið í eldlínunni í þessu máli, bæði gagnvart öðrum utanríkisráðherrum á Norðurlöndum og gagnvart nytsömum sakleysingjum og friðardúfum á Alþingi heima fyrir. Festa hans í þessu máli hefur verið Íslandi mikils virði.

Einnig skiptir miklu, að stjórnarandstöðuflokkurinn, sem virðist hafa mest fylgi um þessar mundir, Alþýðuflokkurinn, hefur gengið í berhögg við stefnu hliðstæðra flokka á Norðurlöndum. Hann hefur eindregið skipað sér í fylkingu vestræns varnarsamstarfs.

Kaldhæðnislegt er, að norrænir ráðherrar og þingmenn skuli liggja í dómgreindarrugli á hliðarspori, meðan fulltrúar heimsveldanna sjálfra eru að ræða skynsamlegar hugmyndir um virkt eftirlit með áþreifanlegum samdrætti vígbúnaðar á ýmsum sviðum.

Afstaða ríkisstjórnarinnar og bakstuðningur Alþýðuflokksins hefur leitt til, að ekki hefur náðst norrænt samkomulag um skipun embættismannanefndar til að kanna möguleika á kjarnavopnalausu svæði á Norðurlöndum. Við stöndum þar þversum með sæmd.

Hinn nýi utanríkisráðherra Noregs er sagður vinna að frestun fundar norræns utanríkisráðherrafundar, sem vera á í Reykjavík 25. marz. Hann vill nota tímann, sem vinnst, til að leita orðalags, er Íslendingar sætti sig við. Frestun getur leitt til skárra orðalags.

Hugsanlegt er, að á endanum verði embættismönnunum falið að undirbúa víðari skilgreiningu, þannig að talað verði um nyrsta hluta allrar Evrópu, allt frá Íslandi til Úralfjalla. Þar með yrðu víghreiðrin á Kolaskaga og við Eystrasalt réttilega inni í myndinni.

Vígbúnaður á Norðurlöndum er lítilfjörlegur og felur hvorki í sér ógnun við heimsfrið, né við frið á norðurslóðum. Vígbúnaður Sovétstjórnarinnar á þessum slóðum, þar með talin kjarnorkuvopn, er hins vegar alvarleg ógnun við heimsfrið og við frið á norðurslóðum.

Verið getur, að Sovétstjórnin vilji ekki ræða slík mál við fulltrúa smáríkja á Norðurlöndum. En sú afstaða er ekki gagnslaus, því að hún mundi leiða til raunsærri viðhorfa á Norðurlöndum í stað óskhyggjunnar, sem tröllríður friðardúfum og sakleysingjum svæðisins.

Hitt er ekki óhugsandi, að Sovétstjórnin telji sér nauðsynlegt, til dæmis af efnahagsástæðum, að sætta sig við núverandi valdajafnvægi, í stað fyrri stefnu heimsyfirráða. Þá gæti einörð og sáttfús afstaða Norðurlanda stuðlað að eftirgjöfum Sovétstjórnarinnar.

Mestu máli skiptir, að nytsamir sakleysingjar á Norðurlöndum verði kveðnir í kútinn og að ekki verði gefnar út einhliða yfirlýsingar, sem Sovétstjórnin mun fyrirlíta. Ísland á norrænu hlutverki að gegna á þessu sviði, þar sem sjónarmiðin eru raunsærri hér á landi.

Einmitt vegna þess á Sjálfstæðisflokkurinn að láta af andstöðu við þátttöku í ráðstefnum þeim, sem danski stjórnmálamaðurinn Anker Jörgensen hefur staðið fyrir. Þar eiga menn einmitt að mæta fjölmennir til að gera markvisst grín að einfeldni frænda vorra.

Skandinavar, þar á meðal ráðherrar og þingmenn, eiga að læra af Íslendingum og leggja niður þann ósið að láta yfirgang Sovétstjórnarinnar taka sig á taugum.

Jónas Kristjánsson

DV