Vinur meðal vina

Greinar

Hún er einn af síðustu útvörðum stéttar, sem margir líta á sem tímaskekkju í nútímanum, stéttar erfðakonunga. Samt er hún einmitt drottning ríkis, sem einna lengst hefur gengið í átt til nýrra lífshátta. Og konungdæmi hennar er fast í sessi, því að allur þorri dönsku þjóðarinnar vill fremur halda Margréti drottningu en að ríkið verði að lýðveldi.

Vinsældir Margrétar í heimalandi sínu eru feikilegar, jafnvel enn meiri en hins alþýðlega föður hennar. Hún er drottning í nýjum stíl, laus við tildur, létt í framkomu, skorinorð og skjót í tilsvörum. Þess verður greinilega vart, að danska þjóðin kann vel að meta drottningu sína og hennar alþýðlega, danska fas.

Heimsókn Margrétar til Íslands er á bezta tíma. Samskipti Danmerkur og Íslands hafa aldrei verið ánægjulegri en einmitt nú. Gömul vandamál fyrri tíma eru horfin eins og dögg fyrir sólu. Og Íslendingar átta sig nú betur á því en nokkru sinni áður, hve góðir grannar Danir eru.

Við minnumst þess, að skilnaður Danmerkur og Íslands í tvö ríki var gerður með góðu samkomulagi beggja aðila. Við minnumst hins fræga heillaóskaskeytis Danakonungs á þeim degi, er Ísland varð lýðveldi. Við minnumst hins sérstæða höfðingskapar, sem Danir hafa sýnt okkur í handritamálinu.

Þetta eru þrjú dæmi um óvenjuleg milliríkjaviðskipti, dæmi um einstæða skynsemi og góðvild í heimi andstæðna og átaka. Við höfum líka nýleg dæmi um, að Danir telja ekki eftir sér að vera vinir vinum sínum. Þeir gættu hagsmuna okkar í Efnahagsbandalaginu, þegar við gerðum viðskiptasamning við það. Þeir hafa ásamt öðrum tekið upp hanzkann fyrir okkur í Atlantshafsbandalaginu í sambandi við landhelgisdeilu okkar við Breta. Og þeir hafa safnað stórfé í frjálsum samskotum til Vestmannaeyja vegna eldgossins.

Ísland og Danmörk eru nú að ýmsu leyti tengd traustari böndum en á sambandstímanum. Íslendingar og Danir hafa ferðazt mikið í landi hvor annars. Óteljandi vináttubönd einstaklinga tengja þessar þjóðir saman. Opinbert samstarf verður líka traustara með hverju árinu, sem líður. Við sækjum engu síður en áður fyrirmynd til Danmerkur, þegar við erum að endurnýja stjórnkerfi okkar, lög og reglugerðir.

Betri nágranna en Dani er vart hægt að hugsa sér. Flestir Íslendingar, sem koma til Danmerkur, kunna sérlega vel við sig og hlakka til að koma þangað aftur. Við vonum, að Margrét Danadrottning kunni nú ekki síður vel við sig hér á landi. Hún mun gera víðreist um landið á þeim skamma tíma, sem hún hefur til umráða. Við vonum, að þær ferðir verði henni til ánægju og yndisauka.

Margrét drottning er verðugur fulltrúi þjóðar, sem er í miklum metum hjá okkur. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna.

Jónas Kristjánsson

Vísir