Örir á annarra fé

Greinar

Nýjustu verðbólgutölur benda til, að rætast muni spá Þráins Eggertssonar prófessors um 40% verðbólgu í lok þessa árs. Hún var komin niður í 12% undir lok síðasta árs, en er nú komin á skrið á nýjan leik og mældist 23% 1. marz á mælikvarða vísitölu framfærslukostnaðar.

Veigamesta skýringin á þessari skyndilegu öfugþróun er, að ríkisstjórnin hefur misst tök á fjármálum ríkisins. Þorvaldur Gylfason prófessor hefur bent á, að þensluhalli ríkisfjárlaga þessa árs sé röskir fimm milljarðar eða næstum 4% af landsframleiðslunni.

Seðlabankastjórar vöruðu líka við þessu í lok síðasta árs. Þeir sögðu: “Halli ríkissjóðs í ár og á hinu næsta á sér stað þrátt fyrir mikið góðæri og hlýtur því að teljast til marks um grundvallarveilu í ríkisfjármálum”.

Þjóðhagsstofnun, sem jafnan þykir höll undir ríkisstjórnir, hefur einnig þorað að æmta. “Betra jafnvægi í opinberum fjármálum og peningamálum er forsenda …” þess, að hægt sé að nota hin hagstæðu ytri skilyrði þjóðarbúsins til að varðveita árangurinn.

Góðærið hefur fært okkur verðhrun á innfluttri olíu, góðan afla og verðhækkanir á útfluttum sjávarafurðum. Til skamms tíma færði það okkur einnig sæmilegt samkomulag á vinnumarkaði um skiptingu gróðans á þann hátt, að lífskjör almennings bötnuðu verulega.

Þótt góðæri sé gott, getur það haft óþægileg og jafnvel hættuleg hliðaráhrif, ef ríkisstjórnin gætir sín ekki. Góðæri veldur nefnilega þenslu í þjóðfélaginu, sem veldur skorti á vinnuafli, er síðan veldur launaskriði og loks auknum innflutningi á vöru og þjónustu.

Ríkisstjórnin má alls ekki magna þessa þenslu með fimm milljarða þensluhalla á fjárlögum. Ríkið verður að fresta framkvæmdum, þótt þær séu taldar mikilvægar og jafnvel nauðsynlegar. Það verður að neita sér um að fjármagna ýmis gæluverkefni og niðursetninga.

Ríkisstjórnin getur neitað sér um að leggja fé til að halda steinullarverksmiðju á floti eitt ár í viðbót. Hún getur frestað að bora göt í fjöll til að leggja þar vegi. Hún getur unnið skipulega að afnámi fjárhagslegra afskipta hins opinbera af landbúnaði. Þetta eru örfá dæmi.

Á núverandi ríkisstjórn sést eins og öðrum slíkum, að jafnan er torvelt að fara sparlega með annarra fé, í þessu tilviki skattgreiðenda. Sérstaklega vill það reynast erfitt á kosningaárum, þegar freistingar sækja að veiklunduðum og skelkuðum stjórnmálamönnum.

Ofan á venjulegar freistingar kosningabaráttunnar leggst að þessu sinni órói á vinnumarkaði opinberra starfsmanna. Hætt er við, að ríkisstjórnin sem vinnu veitandi leiðist til meiri eftirgjafa en ella til að kaupa sér frið og vinsældir hjá starfsfólki, í stað óvinsælda.

Ríkisstjórnin hefur lyft verðbólgunni úr 12% í 23% með því að efna til fimm milljarða þensluhalla á fjárlögum ríkisins á þessu kosningaári. Ef ekki er að gert í tíma, fer sveiflan í 40% verðbólgu í árslok. Frekari atkvæðakaup munu enn magna skrið verðbólgunnar.

Sorglegt er, að ríkisstjórn, sem fór vel af stað og náði verðbólgunni niður í nágrenni við þær tölur, er tíðkast í nágrannalöndunum, skuli missa stjórnina úr höndum sér á síðustu mánuðum fyrir kosningar, af því að hún hefur ekki kjark til að segja fólki sannleikann.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin muni ekki bera gæfu til að fá um sig betri eftirmæli en þau, að fjármálastjórn hennar sjálfrar hafi komið í veg fyrir, að þjóðinni tækist að hagnýta sér góðærið sem skyldi.

Jónas Kristjánsson

DV