Of lítið of seint

Greinar

Sumir bændur, sem eru andvígir nýlegum áherzlubreytingum á landbúnaðarstefnu hins opinbera, hafa sakað ráðamenn stefnunnar um að gera sjónarmið DV að sínum. Segja þeir, að kvótakerfi búmarks og fullvinnsluréttar sé upprunnið hjá bændaóvininum sjálfum.

Þetta er hinn mesti misskilningur. Hið eina, sem gerzt hefur, er, að ráðamenn ríkjandi landbúnaðarstefnu hafa viðurkennt fimmtán ára gamalt sjónarmið úr þessu blaði og forverum þess, ­ að draga þurfi saman seglin í hefðbundnum landbúnaði sauðfjár og nautgripa.

Hins vegar eru sjónarmiðin, sem flutt voru í Vísi fyrir fimmtán árum, fyrir nokkru orðin úrelt, því að ástandið hefur stórversnað síðan þá. Ekki er lengur unnt að mæla með opinberum stuðningi við rólega aðlögun hins hefðbundna landbúnaðar að veruleikanum.

Fyrir fimmtán árum var unnt að verja, að framlög hins opinbera til hins hefðbundna landbúnaðar yrðu nokkurn veginn óbreytt um skeið, en þeim yrði breytt úr stuðningi við framleiðslu yfir í stuðning við atvinnuskipti í aðrar búgreinar eða störf í þéttbýli.

Þá var í Vísi lagt til, að niðurgreiðslufé, uppbótafé og annað styrkjafé væri notað til að byggja upp fiskeldi og loðdýrarækt í sveitum, iðngarða í bæjarfélögum og til að kaupa jarðir úr ábúð, svo að bændur gætu keypt sér húsnæði og endurmenntun í þéttbýli.

Ef hlustað hefði verið á þessi sjónarmið fyrir fimmtán árum, væri hinn hefðbundni landbúnaður núna ekki þjóðaróvinur númer eitt, tvö og þrjú. Þá væru aðeins um 1500 bændur í hefðbundnum landbúnaði og hann hefði lagað sig að raunhæfum markaði í landinu.

Raunhæft var og er að stefna að framleiðslu hefðbundinnar búvöru upp í hluta heildarmarkaðarins innanlands, eins og hann væri án niðurgreiðslna og með innflutningsfrelsi, ­ það er að segja með fullu tilliti til hagsmuna skattgreiðenda og neytenda.

Fyrir fimmtán árum var hægt að sætta sig við tímabundið framhald útgjalda til landbúnaðar, af því að aðgerðirnar, sem mælt var með, hefðu leitt að nokkrum árum liðnum til sparnaðar í útgjöldum skattgreiðenda og lækkunar á matarkostnaði heimilanna.

Vandinn hefur hins vegar aukizt á fimmtán árum. Bilið milli markaðshæfni og framleiðslu hefur breikkað svo, að sambandslaust er orðið á milli. Vandinn hefur aukizt svo, að almenningur yrði stórauðugur á einu bretti, ef hann fengi aðgang að erlendri búvöru.

Vandinn hefur belgzt svo út, að hinn hefðbundni landbúnaður er orðinn að þrautskipulögðu ríkiskerfi, þar sem hið opinbera ábyrgist ekki aðeins tekjur bænda, heldur kaupir einnig í raun ákveðið framleiðslumagn, sem er langt umfram þarfir heilbrigðs markaðar.

Vandinn er orðinn svo hrikalegur, að ekki er fyrirsjáanlegt, að byrði ríkisins af þessum niðursetningi sínum geti nokkuð lækkað. Hver króna, sem fer frá útflutningsuppbótum yfir í framleiðnisjóð, er notuð til að halda í horfinu, ­ halda óbreyttri framleiðslu.

Liðið er fimmtán ára tímabilið, þegar þjóðin hefði getað lagað niðursetninginn tiltölulega sársaukalítið að hinum kalda veruleika. Nú er það aðeins hægt með harkalegum aðgerðum, ­ með því að skera á hnútinn og friða heil héruð fyrir bændum og fylgidýrum þeirra.

Undanhald forustuliðs landbúnaðarstefnunnar er of lítið og kemur of seint. Ekki verður komizt hjá uppgjöri þjóðarinnar við óvin sinn númer eitt, tvö og þrjú.

Jónas Kristjánsson

DV