Ríkisstjórnin framdi þjófnað aldarinnar á föstudaginn í síðustu viku. Þá ritaði landbúnaðarráðherra undir samning um, að ríkið ábyrgist sölu á kindakjöti og mjólkurafurðum fyrir 28 milljarða króna á næstu fjórum árum. Neytendur og skattgreiðendur borga tjónið.
Þegar búið er að deila samningsupphæðinni niður á fjölskyldurnar í landinu, kemur í hlut hverrar fjögurra manna fjölskyldu að greiða 480.000 krónur á fjögurra ára samningstíma. Það er árleg 120.000 króna greiðsluskylda á hverja fjögurra manna fjölskyldu.
Engu máli skiptir, hvort hinir rændu vilja nota þessar vörur í því magni, sem ríkisstjórnin hefur samið um, eða borga þær á hinu svokallaða fulla verði. Þeir, sem ekki vilja það, borga tjónið í skattinum. Hinir borga það í skattinum og í verðinu yfir búðarborðið.
Með samningi föstudagsins svarta er reynt að hindra markaðsaðlögun hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda. Samningurinn frystir árlega framleiðslu sauðfjárafurða í 11.000 tonnum og eykur árlega mjólkurframleiðslu úr 102.000 lítrum í 104.000 lítra.
Sérfræðinganefnd úr landbúnaðinum, svokölluð landnýtingarnefnd, hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að framleiðendur í hinum hefðbundna landbúnaði séu tvöfalt fleiri en þörf er fyrir. Þessi óþarfa framleiðsla á að haldast áfram samkvæmt nýja samningnum.
Þess vegna verður áfram haldið að greiða niður búvöru á kostnað skattgreiðenda til að koma henni út. Þess vegna verður áfram haldið að gefa osta, mjólkurduft og kjöt til útlanda, svo að ekki hlaðist upp meiri fjöll afurða þeirra, sem ríkið hefur ábyrgzt.
Í rauninni er offramleiðslan meiri en fram kemur í niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum. Ef almenningur hefði aðgang að ódýrari búvöru frá útlöndum, kæmi í ljós, að markaður í landinu fyrir afurðir kúa og kinda er ekki nema brot af því, sem ráðamenn halda.
Ef ríkið telur sig, fyrir hönd neytenda og skattgreiðenda landsins, hafa efni á að kaupa á einu bretti fjögurra ára framleiðslu hefðbundinnar búvöru, væri skynsamlegra að bjóða viðskiptin út á ódýrum alþjóðamarkaði og láta útlendinga undirbjóða hver annan.
Þá kæmi í ljós, að ríkið þarf ekki að sæta afarkostum einokunarsamnings upp á 28 milljarða. Það getur fengið handa þjóðinni sams konar vörur, svipaðar og hliðstæðar, fyrir svo sem fimm milljarða. Þar með mundi ríkið spara almenningi í landinu um 23 milljarða.
Með því að beita ekki útboði á þessu mikilvæga sviði kemur ríkisstjórnin í veg fyrir, að lífskjör fjögurra manna meðalfjölskyldu batni um 100.000 krónur á hverju ári eða um 8.000 krónur á hverjum mánuði í fjögur ár. Á sama tíma er hart barizt um kaup og kjör.
Um leið er ríkisstjórnin að binda hendur þeirrar ríkisstjórnar, sem við tekur eftir kosningar. Hún er búin að leggja á herðar hennar greiðsluklafa út allt kjörtímabilið. Viðtakandi ríkisstjórn getur því lítið lagfært núverandi öngþveiti í fjármálum ríkissjóðs.
Þetta er að sjálfsögðu gersamlega siðlaust. Atkvæði bænda eru keypt í trausti þess, að almenningi sé sama. Svona samning, einokunar- eða útboðssamning, á fráfarandi ríkisstjórn ekki að gera mánuði fyrir kosningar, heldur ný ríkisstjórn mánuði eftir kosningar.
Með þjófnaði aldarinnar hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lýst yfir, að kjósendur þeirra í þéttbýli og við sjávarsíðuna séu algerir bjöllusauðir.
Jónas Kristjánsson
DV