Hin litla stjórn, sem var á fjármálum ríkisins, hefur horfið eftir kosningar. Áætlanir um fjárlagahalla ársins eru komnar upp í fjóra milljarða, sem þýðir, að raunverulegur þensluhalli ríkisins fer upp í sex milljarða á þessu ári. Báðar tölurnar eru uggvænlegar.
Gælur við hugmyndir um skaðleysi ríkishalla eru til marks um uppgjöfina í baráttunni gegn hallarekstri ríkissjóðs. Hið eina vitlega í þeim gælum er, að illskárra er að stofna til ríkisskulda innanlands en á erlendum markaði. Samt sem áður er það slæmt.
Ríkishalli er sérstaklega hættulegur, þegar mikil þensla er í þjóðfélaginu, þegar verkefni þjóðarinnar eru meiri en starfskraftar hennar. Þetta er sjaldgæft fyrirbæri í umheiminum, þar sem hagfræðikenningar eru samdar, en algengt hér á landi, sem betur fer.
Við slíkar aðstæður er mikilvægt, að ríkið haldi sínum eigin verkefnum í skefjum til að vega á móti þenslunni. Með þeim hætti nýtast kraftar þjóðarinnar bezt til sóknar í atvinnulífinu, án þess að veruleg hætta sé á, að spennan leiði til vaxandi verðbólgu.
Undir núverandi stjórn fjármála ríkisins hefur hins vegar verið stefnt í þveröfuga átt. Hinn mikli og vaxandi halli á rekstri ríkisins hefur magnað þensluna og er langstærsta orsök þess, að verðbólgan er byrjuð að leika lausum hala á nýjan leik og stefnir til skýja.
Þorsteinn Pálsson hefur sér til forláts að hafa í farteskinu ráðherra á borð við Sverri Hermannsson, sem hækkar afnotagjald Ríkisútvarpsins um 67% í einu vetfangi, og Jón Helgason, er semur við landbúnaðinn um, að ríkið ábyrgist 28 milljarða á fjórum árum.
Það er samt verkefni fjármálaráðherra að reyna að halda aftur af samráðherrum sínum, sem eru allra manna örlátastir á annarra fé. Þetta hefur illa tekizt, síðan Þorsteinn varð fjármálaráðherra, og alls ekki nú eftir kosningar, þegar allt rekur á reiðanum.
Hinn mikli halli á ríkisrekstrinum margeflir þensluna í þjóðfélaginu. Hallinn og þenslan hafa þegar leitt til launaskriðs á almennum vinnumarkaði og hárra samninga við ýmsa opinbera starfsmenn. Verðbólgan nú í maí er komin yfir það, sem hún átti að verða í september.
Öðrum hvorum megin við síðustu áramót hætti verðbólgan að stefna niður á við, þegar hún var farin að nálgast siðmenningarlega eins stafs tölu. Nú er hraði hennar kominn upp undir 20% og stefnir hraðbyri upp fyrir 30% í árslok. Þetta stafar af ríkishallanum.
Þessi afturför skiptir öllu máli í umræðum um ríkishallann. Í ljósi hennar er skammsýnt að gæla við kenningar um, að þjóðin skuldi ríkinu meira en ríkið þjóðinni, og gæla við óstaðfærðar tilgátur um, að lántökur ríkisins innanlands valdi ekki verðbólgu.
Við sjáum vaxandi ríkishalla leiða til vaxandi samkeppni, ekki bara um starfskrafta, heldur einnig um lánsfé. Í bönkunum hefur myndazt útlánahalli og gagnvart útlöndum hefur myndazt viðskiptahalli. Þetta mun fljótlega leiða til hækkunar á háum vöxtum.
Fyrstu mánuði ársins þurftum við að þola ríkisstjórn, sem reyndi að kaupa sér atkvæði með gjafmildi á annarra fé. Eftir kosningar þurfum við að þola sömu stjórn, sem þykist nú alls ekki þurfa að stjórna, af því að hún sé bara að passa sjoppuna fyrir næstu stjórn.
Niðurstaðan er að verða sú, að ríkisstjórnin skilji ríkisfjármálin eftir í mun verra ófremdarástandi en var, þegar hún tók við. Hún hafi spillt góðærinu.
Jónas Kristjánsson
DV