Frá Mælifelli á Mælifellssandi um Húsadal í Þórsmörk að Torfastöðum í Fljótshlíð.
Flosi Þórðarson fór frá Svínafelli að Njáli á Bergþórshvoli.
Hestamenn hafa farið þessa leið nú á tímum, en hún er þungfær. Betri fyrir göngufólk.
Í Chorographica Islandica í byrjun 18. aldar segir Árni Magnússon: Flosavegur upp úr Þórsmörk liggur milli Eyjafjallajökuls og Tindafjallajökuls. Mér er sagt, hann sé ennú við lýði, en sé vondur og erfiður. Nú á tímum er leiðin einnig farin, en þykir ströng. Í Njáls sögu segir, að Flosi og menn hans lögðu af stað frá Svínafelli að morgni sunnudags og voru komnir á Þríhyrningshálsa fyrir klukkan níu á mánudagskvöldi. Allri leiðinni er lýst undir titlinum Flosavegur. Hér er lýst líklegum kafla vestur frá Mælifellshnjúki.
Förum frá Mælifelli vestur Mælifellssand, framhjá afleggjara að Hvanngili. Vestur jeppaslóðina að Hattafelli og suður þar vestan við Stórkonufell og Litla-Mosfell að Mýrdalsjökli. Þar er farið yfir Neðri-Emstruá og síðan vestur Emstruleið að Markarfljóti og áfram suðvestur með fljótinu að Húsadal í Þórsmörk. Kaflinn frá Litla-Mosfelli að Húsadal er mjög erfiður. Einhvers staðar þar er Goðaland, sem sagt er frá í Njálu. Frá Húsadal er farið á vaði yfir Markarfljót og síðan vestur Fljótshlíð að Torfastöðum í Fljótshlíð. Norðan Torfastaða eru Þríhyrningshálsar undir Þríhyrningi, þar sem Flosi og menn hans földu sig.
39,8 km
Rangárvallasýslur
Erfitt fyrir hesta
Nálægir ferlar: Mælifellssandur, Fljótshlíð.
Nálægar leiðir: Flosavegur, Strútslaug.
Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Jónas Kristjánsson og Njála